133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[11:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað til þess að verja hæstv. forseta. Ég tel að hæstv. forseti hafi staðið vel að því að raða mönnum á mælendaskrá áðan þegar talað var um stjórnarskrána.

Hæstv. forseti vísaði til ákveðinnar greinar þar sem segir að við sérstakar aðstæður megi breyta röð. Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt að forustumenn flokkanna gætu komið sínum málstað á framfæri. Ég geri engar athugasemdir við að hæstv. forsætisráðherra hafi verið skotið síðustum að vegna þess að það skiptir máli til að skýra málið (Gripið fram í.) að afstaða hans kæmi fram. (Gripið fram í: Þetta er rétt hjá þér.) Þetta vildi ég segja vegna þess að mér finnst oft (Gripið fram í.) á tíðum ómaklega vera vegið að þeim sem stýrir fundum þingsins. Ég tel einfaldlega að hæstv. forseti hafi gert það vel.

Hitt vil ég svo segja, sem mína persónulega skoðun, að ég fagna því að forsætisráðherra tali sem oftast um þetta mál, frú forseti. Hann hefur vondan málstað að verja og því oftar sem hann talar því betur kemur það í ljós. Það er í rauninni þannig að enginn hefur slegið hann út í því efni á þessum degi nema ef vera skyldi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra.