133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[11:05]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. 1. þm. Reykjavíkur norður um það sem hann var að segja áðan. Ég held að umræðan hafi farið fram eðlilegum hætti.

Formaður Samfylkingarinnar hóf umræðu um mál og beindi orðum sínum ekki síst til forustumanna ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það var mjög eðlilegt til þess að þessari umræðu gæti lokið, að bæði hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fengi orðið að nýju sem og hæstv. ráðherrar og að hæstv. forsætisráðherra tæki til máls.

Það er rétt að umræðuhefðin sem við höfum verið að skapa undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins eða Um fundarstjórn hafa þróast með allt öðrum hætti en þær voru í upphafi. Þær hafa ekki þróast nákvæmlega eftir orðanna hljóðan í þingsköpum Alþingis. Við höfum verið að þróa þetta meira í þá átt sem við höfum séð undanfarin ár, í eins konar utandagskrárumræðu þar sem menn hafa tekið upp mál dagsins og hæstv. forsetar hafa verið að skapa vettvang til þess undir þessum dagskrárlið.

Það má deila um hvort þetta sé eðlilegt. Þetta hefur hins vegar verið gert vegna þess að þarna hefur verið svigrúm til að hv. þingmenn gætu tekið upp mál sem m.a. hafa verið á vettvangi ríkisstjórna og menn hafa talið nauðsynlegt að fjalla um á Alþingi. Þess vegna var umræðan núna mjög eðlileg og mjög í anda þess sem við höfum séð á undanförnum árum.

Hæstv. forseti vitnaði til þingskapa máli sínu til stuðnings, þegar hún útskýrði hvers vegna hún stjórnaði fundinum með þeim hætti sem hún gerði. Ég tek mjög undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það var eðlileg og sanngjörn stjórn fundarins.