133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[11:13]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram, eins og sanngjarnir þingmenn hafa gert á undan mér, að það er ekkert athugavert við fundarstjórn forseta í þessu máli. Hún fór einfaldlega eftir 56. gr. sem segir:

„Forseti gefur þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess þá er dagskrármálið er tekið fyrir. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra, sem hlut á að máli, og framsögumann, svo og til þess að ræður með og móti málefni skiptist á, eða til þess að þingmaður geti gert stutta leiðréttingu eða athugasemd er snertir sjálfan hann.“

Það var vissulega farið eftir þessu við þessa umræðu og er ekkert athugavert við fundarstjórnina. Það er út í hött að teygja þetta út á einhverja aðra kafla. Þetta er í kaflanum um fundarsköp þingsins og var ekkert athugavert við þetta.

Forseti fór eftir þeirri sanngjörnu reglu að láta hv. 9. þm. Reykjavíkur norður, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fá orðið aftur. Hún hóf málið og hæstv. forsætisráðherra fékk orðið aftur. Hann varð til andsvara og það er hreinlega ekkert athugavert við þetta og ástæðulaust að setja á langar ræður enda hafa sanngjarnir þingmenn, eins og ég orða það, sagt hið sama í þessari umræðu.