133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

573. mál
[11:32]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 59/2006, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur og Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Tilskipun 2005/68/EB gildir um sjálfstæðan rekstur endurtrygginga af hálfu endurtryggingafélaga sem aðeins stunda endurtryggingar og staðsett eru innan Evrópusambandsins og síðar Evrópska efnahagssvæðisins eftir að tilskipunin hefur verið felld inn í EES-samninginn og mælir fyrir um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að geta hafið rekstur endurtryggingafélags.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og þurfa nauðsynlegar breytingar að hafa tekið gildi eigi síðar en 10. desember 2007.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita Jón Kristjánsson, varaformaður og framsögumaður, Össur Skarphéðinsson, Jón Gunnarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Sigurrós Þorgrímsdóttir.