133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[11:34]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Þórarinsson frá Vestnorræna ráðinu og Berglindi Ásgeirsdóttur og Friðrik Jónsson frá utanríkisráðuneyti.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina, í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að gera samkomulag um að löndin skiptist á ræðismönnum og að þau komi sér upp sameiginlegum ræðismannsskrifstofum. Með ályktun nr. 2/2006 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 21. ágúst 2006 í Þórshöfn samþykkti ráðið að skora á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að koma á slíkum ræðismannaskiptum.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti er stefnt að opnun nýrrar ræðisskrifstofu Íslands í Þórshöfn í Færeyjum 1. apríl næstkomandi. Þá hefur verið upplýst að Færeyingar hyggist opna ræðisskrifstofu í Reykjavík síðar á þessu ári.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita Jón Kristjánsson, varaformaður og framsögumaður, Jón Gunnarsson, Drífa Hjartardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Bjarni Benediktsson.