133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[11:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að ræða ályktun frá Alþingi sem ég styð. Það kemur fram í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar, sem er framsögumaður sameiginlegs álits nefndarinnar, hverjir standa að því. Ég á sæti í utanríkismálanefnd þó að ég hafi verið fjarstaddur þegar þetta mál var afgreitt en ég verð hins vegar að segja það hér að ég styð málið mjög.

Hins vegar kom líka fram í máli hv. þingmanns, eins og við höfum lesið í fregnum, að búið er að ganga frá því að ræðismannsskrifstofa verði af okkar hálfu opnuð í Færeyjum innan eins mánaðar. Mig langaði til að spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson hvort það sé ekki svolítið óeðlilegt að áður en Alþingi hefur tekið ákvörðun um þetta og vilji þess liggur ekki fyrir með atkvæðagreiðslu grípi framkvæmdarvaldið til þess að ganga frá málinu áður en svo er. Það er eins og það gildi einu hvert álit Alþingis er. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann um þetta því að mér finnst þetta svolítið umhendis. Ég vil taka alveg skýrt fram að í þessu felst enginn óvilji af minni hálfu gagnvart málinu. Hins vegar finnst mér þetta undarleg vinnubrögð en þau tíðkast kannski. Mér hefur ekki verið kunnugt um það á 16 ára þingferli.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann, af því að hann talar í krafti stjórnarmeirihluta, hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar um slík skipti gagnvart Grænlandi. Ég hef ekki orðið var við það í umræðunni. Mér finnst að þeir eigi að njóta sömu stöðu og Færeyingar gagnvart okkur. Þetta eru okkar bestu grannar alveg eins og þeir. Á þetta vildi ég leggja áherslu og inna hv. formann utanríkismálanefndar eftir þessu.