133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[11:38]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að framkvæmdarvaldið hafi staðið í þeirri trú að þessi tillaga yrði samþykkt á Alþingi þar sem almennur stuðningur hefur verið við málið. Þetta er ekki nýtt mál og það hafi verið í ljósi þess sem þessi dagsetning var ákveðin. Ef Alþingi hefði verið á móti þessu hefði auðvitað verið hægt að breyta henni en það er náttúrlega ljóst, eins og fram kom hjá hv. ræðumanni, að víðtækur stuðningur er við málið og aldrei hefur neitt annað komið fram. Auðvitað er það góð regla að Alþingi samþykki mál áður en þau eru ákveðin af framkvæmdarvaldinu og menn leiti heimilda þingsins, ekki mæli ég á móti því, en ég held að þetta mál hafi haft sérstöðu þar sem ég hef ekki heyrt nokkurn þingmann andmæla því.

Varðandi Grænland þá er það mál ekki eins þroskað og þetta en ég held að það sé eins með ræðismannsskipti við Grænland að það er almennur stuðningur við að undirbúa það mál. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum einnig að búa svo um hnútana á Grænlandi við þá ágætu nágranna okkar að skiptast á ræðismönnum, þó að ég þori ekki að segja um það á þessu stigi hvenær það getur orðið að veruleika.