133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[11:42]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í rauninni ekki miklu við þetta mál að bæta. Það er ef að líkum lætur um mánuður þangað til að opnuð verður ræðismannsskrifstofa í Færeyjum og er það vel. Ég endurtek þá skoðun mína að við þurfum að búa svo um hnútana að við getum gengið frá ræðismannaskiptum í Grænlandi. Það er eindregin skoðun mín og ég held að það sé vilji þingsins að sá undirbúningur geti gengið greiðlega fyrir sig, það sem eftir er af honum, en mér er kunnugt um að það mál var ekki eins langt komið og ræðismannaskiptin við Færeyjar. Ég tel bæði þessi mál mjög mikilvæg og undirstrika þá skoðun mína að við eigum að halda uppi góðum samskiptum við þessi grannríki okkar en þessi samskipti eru afar mikilvæg að mínu mati.