133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[11:43]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel að þetta mál sé í sjálfu sér hið besta og hvet til þess að strax og það hefur verið samþykkt á þinginu sem allar líkur eru á bregðist stjórnvöld við með því að ákveða einnig að stofna ræðismannsskrifstofu á Grænlandi og bjóða Grænlendingum að gera slíkt hið sama í Reykjavík. Ég styð í sjálfu sér þessa tillögu til þingsályktunar sem hér er komin til síðari umræðu.

Við það verð ég þó að gera þá athugasemd og játningu að hún mun hafa komið til fyrri umræðu seint að kvöldi. Hafði ég áður en hún kom til umræðu ætlað að taka þátt í henni en það féll inn í þennan skrýtna tíma á þingi þegar mál sviptast á milli funda og daga og langur listi af málum er á dagskrá hverju sinni þannig að ég verð að viðurkenna að ég brást minni þinglegu skyldu og tók ekki eftir því þegar þetta mál var loksins á dagskrá í alvöru og rætt. Ég hygg að það hafi verið seint um kvöld í síðustu eða þarsíðustu viku. Atkvæðagreiðslan fór einnig fram hjá mér. Ég held að ég hafi ekki verið viðstaddur hana sem er auðvitað ekki gott til frásagnar og gat því ekki heldur gert þar þær athugasemdir sem hefðu verið viðeigandi.

Enn brást ég í því hið þriðja sinn að koma á framfæri til þeirrar nefndar sem um málið fjallar þeim athugasemdum sem ég vildi við það gera þannig að mín er sökin, mea culpa, þrisvar sinnum.

Satt að segja, forseti, er þessi tillaga til þingsályktunar þannig orðuð frá sjónarmiði íslenskrar tungu og íslensks stíls að ekki er sæmilegt fyrir Alþingi að samþykkja hana í þessu formi. Þetta á einnig við um tillögu til þingsályktunar um kennslu vestnorrænnar menningar í grunnskólum, tillögu til þingsályktunar um sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd og tillögu til þingsályktunar um útvíkkun fríverslunarsamnings Færeyja og Íslands, Hoyvíkur-samningsins. Mín ráð eru þau að þessum tillögum öllum, fjórum eða fimm, ég er ekki með dagskrána hjá mér og veit ekki hver sú fimmta er eða hvort hún var til, sem komu þessa sömu leið, varða vestnorrænt samstarf og hafa farið frá Vestnorræna ráðinu í upphafi til Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, hygg ég að það heiti, og svo inn á þingið, að allar þessar tillögur verði teknar af dagskrá, umræðu um þær frestað þangað til tími gefst til fyrir þá sem þær flytja eða aðra þingmenn að gera breytingartillögur við orðalag á þessum textum þannig að þeir sæmi virðingu þingsins. Eftir þessa ræðu hlýtur að standa upp á mig að segja frá því hvers vegna þetta sæmir ekki virðingu Alþingis. Það eru nokkrar ástæður til þess.

Í fyrsta lagi er forsetningarliðurinn „í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands“ sem getur hvað málfræðina og setningafræðina varðar bæði átt við um áskorun Alþingis og um það sem ríkisstjórnin á að gera þannig að þessi forsetningarliður er á ákaflega óheppilegum stað. Forsetningarliðurinn er þar að auki afmarkaður með kommum en um forsetningarliði af því tagi gildir almennt að hægt er að sleppa þeim án þess að það skaði setninguna en ef við sleppum forsetningarliðnum yrði setningin svona: Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera með sér samkomulag um að löndin skiptist á ræðismönnum. Er þá setningin orðin gjörsamlega óskiljanleg og órökrétt. Varla er átt við það að einstakir ráðherrar geri með sér samkomulag, heldur að ríkisstjórnin geri samkomulag um eitthvað og þá hugsanlega við einhverjar aðrar stjórnir eða einhverja jafningja annarra ríkja eða svæða. Jafnvel þótt maður færi til forsetningarliðinn sem þarna er innan þessara tveggja komma á skynsamlegri stað verður heldur ekkert vit í setningunni. Hún yrði þá t.d. svona: Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera með sér samkomulag í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að löndin skiptist á ræðismönnum. Enn á ríkisstjórnin samkvæmt þessu að gera samkomulag við sjálfa sig en í þetta sinn í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands.

Ef einhver sérstök merking fylgir þessu klúðri í texta óska ég eftir því við forsvarsmenn þeirra sem þessar tillögur flytja á þinginu að gerð verði rækileg grein fyrir því hvað þetta orðalag þýðir. Stundum er það þannig að hornótt og klúðrað orðalag stenst á við þá erfiðu og flóknu hluti sem verið er að lýsa. Athugasemdir frá íslenskumönnum og almenningi um kansellímálfar, svokallað stofnanamál, eru þess vegna ekki alltaf sanngjarnar vegna þess að með tilteknum texta er reynt að ná utan um flókna og erfiða hluti. Stundum er stefna þeirra sem nota slíkt málfar, eða er gert að nota það eða vinna í þeim stofnunum eða við þau skilyrði að þeir verða að nota það með einhverjum hætti, að orða hlutina þannig með ákveðnu klúðri til þess að skilja eftir ákveðna óvissu í textanum, skilja eftir ákveðið bil í merkingunni þannig að hún sé ekki skýrt orðuð. Það verður líka að virða þeim til vorkunnar. Það geta komið upp slíkar stundir í stjórnskipaninni og stjórnsýslunni, jafnvel hjá pólitískum flokkum, að menn vilji að vísu gefa frá sér almenna merkingu en ekki allt of nákvæma og grípa þess vegna til orðalags sem því lýsir. (Gripið fram í.) Er sú reyndin hér, forseti? Ég hygg að svo sé ekki. Ég held að með fyrri hluta þessarar tiltölulega stuttu tillögu sé átt við það að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að þessar stjórnir skiptist á ræðismönnum. Ég skil ekki, forseti, hvers vegna það orðalag er þá ekki notað nema að menn séu dauðir úr öllum æðum á þinginu og lesi ekki þær tillögur sem þeir ýmist flytja eða eru meðflutningsmenn að.

Ég verð að segja líka, forseti, að mér finnst undarleg skipan hér á þinginu og ekki smekkleg að starfsmenn þingsins geri þá ekki athugasemdir við tillögur af þessu tagi. Ég veit að starfsmenn þingsins vilja lítið hreyfa við frumvörpum sem berast frá ráðuneytunum, svokölluðum stjórnarfrumvörpum. Það er skiljanlegt þó að það sé kannski ekki stórmannlegt en það kunna að vera einhverjar kurteisisreglur í samskiptum starfsmanna þingsins annars vegar og ráðuneytanna hins vegar sem oft bera ábyrgð á endanlegum frágangi textans þótt auðvitað beri ráðherrann heildarábyrgðina á því sem hann flytur hér. Það kunna að vera einhverjar kurteisisreglur sem útiloka breytingar á stjórnarfrumvörpum en þessi tillaga hér og hinar fjórar eða fimm koma ekki úr ráðuneytunum, heldur koma þær frá nefnd innan þingsins, frá fólki sem situr í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Ég tel að starfsmenn þingsins — og segi það af mikilli kurteisi og virðingu fyrir þeim — hefðu átt að bregðast við orðalagi af þessu tagi og orðalagi sem finna má með svipuðum hætti í öllum hinum tillögunum. Þetta er ákaflega furðulegt vegna þess að hér á þinginu situr úrval íslenskumanna. Má hefja þá upptalningu á sjálfum skrifstofustjóranum og finna í starfsliði hans fjölda manna hvern öðrum færari í íslenskum stíl og íslenskri málfræði þannig að þeim hefði verið í lófa lagið ef þeir hefðu fengið um það bendingu að laga þetta í textanum.

Kem ég þá, forseti, að seinni hluta þessarar stuttu tillögu og byrja í sömu setningu og ég var að gagnrýna. Í þeirri tillögu kemur tvisvar sinnum fyrir orðið land í fleirtölu. Það er þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina, í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að gera með sér samkomulag um að löndin skiptist á ræðismönnum. Löndin eru hvött til að koma sér upp sameiginlegum ræðismannsskrifstofum.“

Þetta er sérkennilegt orðalag. Þegar lesin er greinargerð þeirra þingmanna sem sitja í Vestnorræna ráðinu kemur í ljós að það verður ekki miklu skýrara hvað hér er átt við ef ekki er reynt að lesa þeim mun betur í málið.

„Land“ getur haft ýmsar skýringar í daglegri íslenskri tungu. Algengast er það, og nú held ég mig við eitt merkingarsvið þessa orðs sem vissulega á sér nokkur, í venjulegri málnotkun um landsvæði þar sem býr tiltekin þjóð eða tiltekið ríki er stofnað og í þeirri merkingu notum við það alla jafna. Við segjum að Ísland sé land, Frakkland sé annað land og Þýskaland sé þriðja landið og í þeirri merkingu er það m.a. notað í greinargerðinni sem ég ætla að fara aðeins í á eftir.

Önnur merking orðsins „land“ í daglegu máli er að átt er við samfélagið á hverju svæði, stundum þjóðina sem býr í landinu, því sem átt er við í fyrstu merkingunni sem ég talaði um. Það kemur líka fyrir í greinargerðinni að orðið land er notað í þeirri merkingu.

Síðan er hægt í þriðja lagi, og það er kannski að bestu manna yfirsýn sísta notkunin á orðinu „land“, að nota það fyrir stjórnvöld, ríkisstjórn eða landsstjórn á hverju landsvæði eða meðal hverrar þeirrar þjóðar sem um er að ræða. Í sjálfum tillögutextanum virðist sú merking vera notuð um orðið land og það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að það sé sú merking sem notuð er um að löndin skiptist á ræðismönnum og síðan séu löndin hvött til að koma sér upp sameiginlegum ræðismannsskrifstofum. En þetta er eins og ég sagði sísta notkunin af þessum þremur sem til greina koma um lönd þegar um þau er að ræða með þessum hætti undir þeim lið sem t.d. mundi heyra saman í orðabók.

Til fróðleiks og skemmtunar má lesa stuttlega rökstuðning í greinargerðinni og fara í gegnum þetta. Strax í 2. mgr. er talað um lönd, þar er talað um tengsl og samstarf landanna. Þar mun vera átt við samfélagið í löndunum, kannski þjóðirnar en þó frekar einstaka hluta samfélagsins, að það vaxi stöðugt að umfangi. Síðan er sagður vilji í löndunum til að styrkja það enn frekar. Þá er væntanlega átt við einmitt þetta sama samfélag frekar en að átt sé beinlínis við þjóðir. Síðan segir að Vestnorræna ráðið vilji auka samstarf á milli stjórnvalda landanna, íbúanna, atvinnulífs og vinnumarkaðar. Þarna er sennilega frekar átt við þjóð en samfélag. Síðan segir að ríkið stofni oft ræðismannsskrifstofur og sendiráð í löndum sem þau tengjast nánum böndum. Þar er komin enn ein merking og hún er svona hálfa leið á milli þess að átt sé við beinlínis ríkið sjálft eða stjórneininguna sjálfa og síðan landsvæðið.

Áfram segir að það sé afar mikilvægt að löndin komi á fót launuðum ræðismannsskrifstofum. Þarna mun vera átt við stjórnir landanna. Þessar skrifstofur eiga að hafa diplómatíska stöðu eða að komið sé upp viðskiptafulltrúum hvert í annars löndum. Þarna er vart hægt að skilja þetta öðruvísi en sem landsvæði þau sem þessar viðkomandi stjórnir ráða yfir.

„Það mun auðvelda fólki að flytja milli landanna“ vísar væntanlega hins efnislega lands sem ég ræddi áður, en „það mundi líka efla starfsemi atvinnulífsins milli landanna“ og þá er aftur átt við samfélagið. Síðan er enn talað um að flytjast milli landanna og væntanlega fljúga frá einu landi, sigla eða aka ef það væri hægt frá einu landi til annars. Að lokum kemur svo í greinargerðinni síðasta málsgreinin þar sem orðið land er notað í öllum þremur merkingunum sem hægt er að festa við það. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Vestnorræna ráðið álítur það eðlilegt framhald langrar og jákvæðrar hefðar vestnorrænnar samvinnu að löndin stofni ræðismannsskrifstofur með diplómatíska stöðu hvert í annars löndum og hvetur því stjórnir landanna til að semja um stofnun ræðismannsskrifstofa með diplómatíska stöðu.“

Þetta er eiginlega ekki gott. Ég hygg að þingmenn og aðrir sem á mig hlýða hljóti að vera mér sammála um að þetta orðalag á þingsályktunartillögu er fyrir neðan virðingu Alþingis og að hér sé ekki gætt þess sóma sem þinginu er skylt að gera gagnvart íslenskri tungu. Ég undrast kannski sérstaklega að 1. flutningsmaður málsins, sem því miður er ekki hér staddur, skuli vera hv. þm. Halldór Blöndal sem er orðhagur maður og unnandi íslenskrar tungu. Hv. þm. Halldór Blöndal gegnir nú formennsku í merkilegri nefnd sem ætlað er að sjá um hátíðahöld í tilefni af 200 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar síðar á þessu ári. Ég held að það hljóti að hafa verið einhver mistök þegar Halldór Blöndal gerðist tillögumaður um þennan óskapnað. Mér þykir sem sagt leitt að hann skuli ekki vera viðstaddur til að taka undir með mér í þessu máli og leggja til með mér þær ráðstafanir sem nú þyrfti að grípa til til þess að bæta úr því.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri að sinni, en ég hef kosið að fara mjög vandlega í gegnum þetta vegna þess að þetta er auðvitað dæmi um það sem ekki á að koma fyrir okkur í þinginu, þar á meðal ekki mig eins og ég viðurkenndi í upphafi. Ég endurtek áskorun mína til forseta um að fresta afgreiðslu þessara mála þangað til hægt er að ganga frá breytingartillögu við þau öll þar sem sóma íslenskrar tungu er gætt og virðingar Alþingis. Ég óska eftir svari forseta við þeirri beiðni í þessari umræðu.