133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[12:45]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er býsna merkilegt mál sem hér er til umræðu og ánægjulegt hve það fær efnislega góðar viðtökur þó að auðvitað séu það fyllilega réttmætar ábendingar sem hér hafa komið fram varðandi málfar á tillögunni og eins þá framkvæmd sem við stöndum frammi fyrir að búið er að tilkynna stofnun ræðismannsskrifstofu í Færeyjum og útnefna þar ræðismann Íslands áður en Alþingi hefur lokið afgreiðslu sinni á málinu sem er að sjálfsögðu ekki til fyrirmyndar.

Ég ætlaði í umfjöllun minni að gera að höfuðefni það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði að umfjöllunarefni, þ.e. þann mismun sem gerður er á löndunum tveimur af hálfu Íslands, þ.e. mismuninn sem gerður er á milli Grænlands og Færeyja þar sem nú hefur verið ákveðið að setja upp ræðismannsskrifstofu í Færeyjum en ekkert er uppi um slíkt á Grænlandi. Það er skoðun mín að ekki sé síður ástæða til að opna ræðismannsskrifstofu á Grænlandi en í Færeyjum og hyggst ég nú rekja nokkrar ástæður til þess, frú forseti.

Það er rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi í ræðu sinni að við eigum mikil og löng söguleg tengsl við Grænland. Hann fór hér aðallega í mjög forna sögu og fór yfir verslunarsamskipti Íslendinga og Grænlands á ákaflega skemmtilegan hátt eins og honum er einum lagið. Við þekkjum öll landsnámssögu Íslendinga á Grænlandi og svo áfram á Nýfundnalandi en sagan er auðvitað nýrri líka og mjög skemmtileg á margan hátt. Við áttum þess kost, þó nokkur hópur Íslendinga, fyrir nokkrum árum að vera við brúðkaup í Hvalseyjarkirkju eða rústum þeirrar kirkju þar sem voru að gifta sig íslensk kona og Jonathan Motzfeldt, þáverandi landsstjórnarformaður Grænlendinga, og var það fyrsta brúðkaupið sem þar hafði verið haldið um langan aldur. Svo skemmtilega vildi til að sú kona sem gifti sig þar á undan var jafnframt íslensk, og formóðir þeirrar sem var að gifta sig í hið seinna skiptið, og átti rætur sínar á Ökrum í Skagafirði og hún hét Sigríður Björnsdóttir. Um þetta brúðkaup í Hvalsey hefur Anna Dóra Antonsdóttir skrifað bók sem heitir að ég veit best Brúðkaupið í Hvalsey. Bókin kom út núna fyrir jólin og fæst í bókabúðinni á Melunum. Þetta er ákaflega skemmtileg bók sem varpar ljósi á þessa atburði á sinni tíð og minnir okkur á þau tengsl sem við höfum við Grænland.

Samskipti Íslands og Grænlendinga gætu verið svo miklu, miklu meiri og víðtækari en þau eru í dag og þau þurfa í rauninni að verða víðtækari af því að við eigum mjög marga sameiginlega hagsmuni. Það liggja t.d. hér fyrir í dag tillögur frá Vestnorræna ráðinu um forvarnir gegn reykingum þar sem við Íslendingar getum vel miðlað Grænlendingum af þekkingu okkar en reykingar eru einmitt rótin að mjög miklum heilbrigðisvanda á Grænlandi. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram á heilbrigðisráðstefnu á Grænlandi árið 2003 reykja 80% Grænlendinga 14 ára og eldri og Grænlendingar telja að reykingar séu rótin að heilbrigðisvanda þeirra að langstærstum hluta, bæði hjartasjúkdómum, krabbameini o.fl.

Við getum að sjálfsögðu mjög vel orðið Grænlendingum til aðstoðar í heilbrigðisþjónustu að nokkrum þáttum þó uppfylltum og þá fyrst og fremst samgöngum. Samgöngur við Grænland eru stopular og íslensk flugfélög hafa ekki fengið leyfi til að halda uppi áætlunarflugi til Grænlands nema á tilteknum og mjög afmörkuðum tímum ársins og í rauninni aðeins til tveggja staða, þ.e. Kulusuk og Ammasalik, ef ég man rétt. Að vísu stendur til að hefja sumarflug líka til Ilulisat og Manitsok sem eru tveir helstu ferðamannastaðir Grænlendinga en það er aðeins um sumarið og við erum ekki með fastar samgöngur við Nuuk þar sem er langmesta þéttbýlið á Grænlandi.

Það kom fram hér áður að Íslendingar eru með ýmiss konar framkvæmdir á Grænlandi, eru að þjónusta Grænlendinga t.d. við flugvallargerð og vegagerð þó að vegir séu að vísu af skornum skammti á Grænlandi eðli málsins samkvæmt þar sem landið er svo strjálbýlt að það er beinlínis ófært að tengja það með vegakerfi nema einstaka landshluta innbyrðis eða innan landshlutanna réttara sagt. Síðan eru Íslendingar, eftir því sem ég best veit, að byggja virkjun á Grænlandi, mjög stóra virkjun sem er, ég held ég fari rétt með, umtalsvert stærri en Kárahnjúkavirkjun á Íslandi. Grænlendingar ætla í kjölfarið að byggja álver sem ég verð að segja að ég gleðst ekki yfir fyrir þeirra hönd, a.m.k. ekki hvað náttúruna varðar, og ég á eftir að sjá hvernig þeir ætla að leysa starfsmannamálin í því efni þar sem Grænland er mjög dreifbýlt og enginn staður á Grænlandi sem hugsanlega gæti séð stórum vinnustað fyrir mannafla nema hugsanlega Nuuk en þessi virkjun og væntanlega álver eru langt frá Nuuk.

Annað sem við eigum mikið sameiginlegt með Grænlendingum og Færeyingum og er mjög nauðsynlegt að við tökum höndum saman um eru umhverfismál og jafnframt öryggismál á hafinu. Grænlendingar verða sennilega mest þessara þriggja landa varir við hlýnun andrúmsloftsins þar sem Grænlandsjökull hefur hopað mjög. Vinur minn einn á Grænlandi fór með bróður sínum að leita uppi stað þar sem þeir höfðu haft sumardvöl með móður sinni í gamla daga og voru að leita upp staðinn þar sem hún hafði eldað. Það hafði í þá daga verið við rætur jökulsins en þegar þeir bræður komu á staðinn hafði jökullinn hopað um tugi kílómetra, sem er auðvitað afskaplega alvarlegt mál.

Við vitum að með auknum siglingum um norðlægar slóðir eykst hætta á ýmiss konar umhverfisslysum, ekki bara í hafinu heldur við strendur landanna og hvort heldur það er við Grænland, Ísland eða Færeyjar eru þessi lönd hvert um sig illa í stakk búin til að bregðast við slíkum umhverfisslysum og sjálfsagt að við tökum höndum saman í því efni. Það er það sem ég á við með öryggi í hafinu.

Að mínu mati þarf Grænland mjög á auknu samstarfi að halda og ekki síður en Færeyjar þar sem það er fjær okkur landfræðilega eða fjær Evrópu, sem það tengist við stjórnarfarslega, en bæði Færeyjar og Ísland. Ég mælist því til þess, virðulegi forseti, að það verði hið fyrsta sett niður dagsetning á opnun ræðismannsskrifstofu á Grænlandi.