133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:03]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er sennilega rétt hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að enginn úr Samfylkingunni hefur mótmælt eða andæft þessum hugmyndum. Ég hef ekki kynnt mér þessa grein sem hv. þingmaður hlýtur að vera að tala um. En þar hlýtur að vera um einhverjar bollaleggingar að ræða því þetta er svo fjarri öllum raunveruleika að einhverjir í flokkum eða annars staðar ætli sér að flytja inn 3–10 milljónir manna.

Ég hef að vísu heyrt menn tala um það, bæði á okkar tímum og fyrr á síðustu öld, hver gæti verið fræðilega heppileg tala íslensku þjóðarinnar. Hvort við ættum að vera eins og hálf milljón, svona eins og það sé í boði, eða hvort milljón mundi kannski vera í lagi eða hvort við ættum að vera færri eða fleiri. Þetta eru svona meira spekúlasjónir út í bláinn.

Við erum stödd á þeim tímamótum að við eigum ekki bara að sætta okkur við það heldur fagna því að hingað flytji inn fólk af erlendum uppruna. Það á að taka vel á móti því fólki og við eigum að gera það að íslenskum borgurum um leið og við tileinkum okkur það besta úr menningu þess og aukum við okkur víðsýni og fjölhæfni.

En ég held að það sé enginn flokkur eða enginn stjórnmálamaður á Íslandi, sem lætur sér detta það í hug að það eigi að breyta samsetningu íslensku þjóðarinnar með einhverjum þeim hætti sem helst væri að kenna við þá félaga Hitler og Stalín. Ég tek það bara illa upp, jafnvel frá mínum góða vini, hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að hann skuli vera að hjakka á þessu í ræðu sinni. Hann hefur um margt betra að tala og á að láta meira að segja Ágúst Einarsson, fræðimann, njóta þess sem hann á en vera ekki að reyna rugla honum saman við stefnu okkar í Samfylkingunni.