133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[16:39]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá formanni hv. heilbrigðis- og trygginganefndar skrifuðu hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Kristján L. Möller og Ellert B. Schram, ásamt þeirri sem hér stendur, undir álit nefndarinnar án fyrirvara, enda var það fyrir tilstilli og ötulan málflutning hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur við umræðu um annan nefskatt sem þá var til umræðu, en ég þarf líklega ekki að geta þess að greiðsla í Framkvæmdasjóð aldraðra er nefskattur. Þegar verið var að ræða nefskatt til Ríkisútvarpsins ohf. kom það mjög til umræðu og vakin var sérstök athygli á því að þeir sem eingöngu greiddu fjármagnstekjuskatt greiddu hvorki þennan nefskatt né aðra nefskatta sem eru til staðar í skattkerfi okkar.

Þegar þessi umræða fór fram var bent á það samhliða þessu sem ég vil ítreka hér, þó að ég hafi ekki talið ástæðu til að setja fyrirvara á þetta nefndarálit sem ég er náttúrlega innilega sammála, að slíkir nefskattar þar sem ákveðin upphæð er greidd alveg óháð því hversu háar tekjur fólk er með eru óréttlátur skattur. Það er erfiðara fyrir lágtekjufólk, fátækt fólk, að þurfa að greiða 6.314 kr. á ári í slíkan skatt en fólk sem er með háar tekjur. Þetta vil ég ítreka hér og mun gera það í hvert skipti sem við ræðum nefskatta vegna þess að ég tel að skattar eigi að fara eftir því hversu háar tekjur fólk hefur. Reyndar er tekið tillit til þess hér að fólk með tekjur undir ákveðnum mörkum greiðir ekki þennan skatt og það er auðvitað alveg sjálfsagt, enda eru það svo lágar upphæðir að þær eru varla til framfærslu. Einnig greiða þeir ekki þennan skatt sem eru yfir 70 ára aldri og börn undir 16 ára aldri.

Ég vil reyndar gera aðeins að umtalsefni Framkvæmdasjóð aldraðra vegna þess að við erum að ræða greiðslur í þann sjóð. Þessi breyting gerir það að verkum að í sjóðinn koma á næsta ári 16 millj. kr. meira og gjaldendurnir sem bætast við eru 2.600, þ.e. ef miðað er við forsendur um tekjur frá árinu 2007. Ég vil nefna það hér vegna háværrar gagnrýni okkar í Samfylkingunni á það að stór hluti af greiðslum í Framkvæmdasjóð aldraðra hefur ekki skilað sér í uppbyggingu á þjónustu við aldraða, hefur ekki skilað sér í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það er ástæða til að gagnrýna það. Þó svo að lögum hafi verið breytt um áramótin verður þeim peningum samt ekki skilað í það sem þeir voru ætlaðir fyrr en eftir næstu kosningar. Aðeins helmingurinn af greiðslunum fyrir árið 2007 á að fara úr sjóðnum en gert var ráð fyrir að þær ættu allar að fara í uppbyggingu. Breytingin sem var gerð um áramótin á ekki að verða fyrr en um næstu áramót, þá á þetta að skila sér.

Við vitum alveg hvernig ástandið er í þessum málum, 400 manns í brýnni þörf bíða eftir hjúkrunarrými. Langt yfir 900 manns eru í þvingaðri samvist með öðrum á hjúkrunarheimilum, með mörgum í herbergi. 70 manns voru á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fyrir tveimur vikum sem komast ekki þaðan út af því að ekki eru til hjúkrunarrými. Lítið hefur gerst frá því um þarsíðustu áramót í þessum málaflokki, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, annað en að tekin hefur verið ein skóflustunga. Ekki hefur bæst við eitt einasta hjúkrunarrými á öllu höfuðborgarsvæðinu og ég held á öllu landinu, allt síðasta ár, allt árið 2006. Tekin hefur verið ein skóflustunga á þessu ári en ekki er gert ráð fyrir neinum peningum í það hjúkrunarheimili sem skóflustungan var tekin fyrir. Hjúkrunarheimili fyrir 110 manns á höfuðborgarsvæðinu var lofað 2002. Þáverandi heilbrigðisráðherra skrifaði undir samning með borgarstjóranum í Reykjavík um að það hjúkrunarheimili yrði komið í gagnið 2005. Skóflustunga fyrir heimilið var tekin fyrir nokkrum vikum. Það er allt á sömu bókina lært í þessum efnum, að öllu sem snýr að Framkvæmdasjóði aldraðra. Helmingurinn af fjármagni til sjóðsins hefur farið í annað, í rekstur eða aðra styrki.

Annað sem ég vil gagnrýna er hversu erfitt er að fá upplýsingar um það sem borgað hefur verið úr sjóðnum til annarra verkefna en í rekstur eða uppbyggingu. Ég hef ítrekað lagt fram fyrirspurnir um þennan sjóð og í dag liggur fyrir fyrirspurn sem hæstv. heilbrigðisráðherra átti að vera búin að svara skriflega fyrir a.m.k. rúmum mánuði ef ekki tveimur mánuðum, að ég held. Ekkert bólar á því svari. Kannski verður um það svar eins og það síðasta sem ég fékk frá hæstv. ráðherra á síðasta ári en þá þurfti ég að kalla ítrekað eftir svörum frá hæstv. ráðherra um það hverjir hefðu fengið greitt úr sjóðnum. Svarinu var dreift í miklu hasti á síðasta starfsdegi þingsins í fyrra þannig að ekki var nokkur leið að koma hér upp, ekki einu sinni undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins því að maður gat ekki fengið orðið til að spyrja nánar út í þær upplýsingar sem komu fram í því svari. Þar kom t.d. fram að búið væri að eyða þeim gögnum sem fjalla um styrki úr sjóðnum frá árinu 1998 og þaðan af eldri vegna þess að ekki er skylt að geyma bókhaldsgögn, eins og segir í svarinu, lengur en í sjö ár. Öll gögn um það hverjir hafa fengið styrki fyrir 1998 eru glötuð, þau gögn eru ekki til. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að efast um að öll gögn um umsóknir í Framkvæmdasjóð aldraðra séu bókhaldsgögn. Það hljóta að vera til bréf til þeirra sem sóttu um styrki þar sem þeim er svarað um að þeir hafi fengið styrkina. Ekki eru það eingöngu bókhaldsgögn.

Ég tel fulla ástæðu til að fá umræðu um þetta og kalla eftir nánari svörum um það hvernig farið hefur verið með þessa peninga. Ég hef líka bent á að í því svari sem ég fékk á síðasta degi þingsins í fyrra kemur líka fram að það tók svo langan tíma að svara mér vegna þess að búið var að setja gögnin sem þó voru til frá 1999 og fram til 2004 í svo kirfilega geymslu að það gekk erfiðlega að finna þau. Þegar þau loksins komu í leitirnar kom í ljós að þeir sem voru að fá peninga úr þeim sjóði sem átti að vera til uppbyggingar á hjúkrunarheimilum, á hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða, þeir peningar eru að fara í allt mögulegt, reyndar er það ekki skýrt nákvæmlega en þeir sem hafa verið að fá úr sjóðnum eru ýmsir aðilar, eins og t.d. Óperukórinn, hann fékk hálfa milljón árið 2004, og Lionsklúbbur Búðardals fær líka hálfa milljón. (Gripið fram í: Í Búðardal?) Já, já, hann fær það 2004, í Dölunum fengu þeir hálfa milljón. Það voru ýmsir fleiri, ég ætla ekki að telja þá alla upp því þetta er langur listi. Hér er nefnd sem hefur verið mjög vinsæl hjá sjóðnum sem ég veit ekki við hvað hefur verið að vinna en hún heitir nefnd um breytta ímynd. (Gripið fram í: Ráðherrans?) Ég velti því fyrir mér hver sú vinna hefur verið um breytta ímynd, hvort það var ímynd ráðherrans sem þá var að störfum eða breytt ímynd aldraðra eða breytt ímynd hjúkrunarheimila. Hér er styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra til Kvenréttindafélagsins og Ungmennafélags Íslands. (Gripið fram í.) Fjöldinn allur af einstaklingum hefur fengið styrki, Ólafur Laufdal (Gripið fram í.) fær styrk árið 1999 og ýmsir fleiri. Ýmis fyrirtæki hafa líka verið í fastri áskrift hjá sjóðnum en ég ætla ekki að fara að tína þau öll til. Það er mjög athyglisvert að fara yfir þennan lista um hverjir fengu greiðslur úr sjóðnum.

Eitt enn sem ég gagnrýni er að þeir sem fengu úr sjóðnum höfðu ekki hugmynd um, sumir hverjir, að þeir væru að fá greiðslur úr þessum sjóði. Þeir sóttu um styrk til heilbrigðisráðuneytisins til ýmissa verkefna og fengu þann styrk en það kom aldrei fram að þær greiðslur sem þeim voru veittar kæmu úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þetta tel ég vera gagnrýnivert svo ég segi ekki meir.

Ég hef áður gert að umtalsefni bækling hæstv. heilbrigðisráðherra um sýn hennar á málefni aldraðra sem kom út í sumar og sendur var til allra eldri borgara á kostnað þessa framkvæmdasjóðs. Ég get náttúrlega tínt til ýmislegt fleira. Einnig hefur verið bent á að ef þessir sérstöku styrkir sem hafa runnið úr sjóðnum á undanförnum árum til ýmissa aðila úti í bæ, og án efa til ágætisverkefna en áttu að fara í uppbyggingu á hjúkrunarheimilum, ef þessir peningar, þetta eru yfir 60 millj. kr., hefðu skilað sér í uppbyggingu t.d. í skammtímavist fyrir alzheimersjúklinga. Það er eitt sérhæft rými á landinu fyrir skammtímavist alzheimersjúklinga, á Landakoti. Það eru fleiri rými fyrir alzheimersjúklinga en sérhæfð rými voru fjögur fyrir tveimur árum, þeim fækkaði niður í tvö í fyrra og eru orðin eitt núna. Þau voru á Landakoti innan um mjög veika sjúklinga og ég vil benda á að margir yngri sjúklingar og margir alzheimersjúklingar sem eru ekki orðnir mjög veikir eiga enga samleið með þeim sem þar eru. Ástandið er afleitt. Einnig er löng bið eftir dagvist fyrir þessa sjúklinga og hægt hefði verið að leysa brýnasta vanda þessa hóps fyrir þá fjármuni sem hafa verið að fara í styrki.

Ég vil gjarnan kalla eftir því hjá hæstv. forseta að hlutast verði til um það að hingað komi svar við fyrirspurn minni um Framkvæmdasjóð aldraðra sem hefur legið fyrir og átti að vera búið að svara fyrir löngu, þannig að svarið berist þinginu áður en þingi verður slitið fyrir kosningar. Það er mjög mikilvægt að fá þau svör inn í þingið áður en þinghaldi lýkur og menn fara í kosningabaráttuna.

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um Framkvæmdasjóð aldraðra og þann hluta laga um málefni aldraðra sem snúa að sjóðnum eins og greinilega hefur komið fram. Ég geri ekki athugasemd við þá breytingu sem verið er að gera en ég tel fulla ástæðu til að ræða málefni sjóðsins ítarlega í ljósi þess hvernig hann hefur skilað sér. Á eftir munum við ræða annað frumvarp til laga þar sem við erum að breyta fyrirkomulagi á því hvernig vistunarmat fer fram. Við fulltrúar Samfylkingarinnar í heilbrigðis- og trygginganefnd höfum einnig skrifað undir það mál og gerum ekki athugasemdir við það breytta fyrirkomulag. Við vitum að ekki hefur verið samræmi í því hvernig vistunarmat hefur farið fram, allt of margir hafa verið að sinna því mati. Þannig hefur fólk sem hefði e.t.v. getað verið lengur heima verið komið með vistunarmat einhvers staðar, eins og bent var á í nefndinni. Ég þori að fullyrða að á höfuðborgarsvæðinu er ekki fólk í bið eftir plássi á hjúkrunarheimili sem ekki ætti að vera þar, það er alveg öruggt, vegna þess að við vitum hvernig vandinn er þar. Ég fór yfir það áðan, hann er mjög stór og þjónustan er ekki sem skyldi, hún þyrfti að vera á einni hendi.

Við í Samfylkingunni leggjum mjög ríka áherslu á að þjónusta við aldraða, heimaþjónusta, félagsleg þjónusta, heimahjúkrun, þurfi að vera á einni hendi, hún þarf að vera í nærþjónustunni, hún þarf að vera hjá sveitarfélögunum. Við munum beita okkur fyrir því í ríkisstjórn eftir kosningar, komumst við þangað, að gerðar verði þær breytingar á þeim málum, að þessi málaflokkur verði á einni hendi, hann verði fluttur til sveitarfélaganna þar sem menn treysta sér til að taka við honum. Sömuleiðis höfum við lýst því yfir að við ætlum að leysa biðlistavandann, við ætlum að leysa hjúkrunarvanda aldraðra þannig að sómi sé að þeirri þjónustu sem eldri borgurum er veitt hér á landi. Ástandið í þessum málaflokki er áfellisdómur yfir núverandi ríkisstjórn. Við munum sjá til þess að þeir peningar sem koma til uppbyggingar í gegnum Framkvæmdasjóð aldraðra skili sér í uppbyggingu, en ég minni líka á að það dugir skammt að byggja upp hjúkrunarrými ef ekki er séð til þess að þjónustan sé til staðar. Það þarf að sjá til þess að fá hæft fólk og það fái borgað sómasamlega fyrir þá mikilvægu vinnu sem það innir af hendi á hjúkrunarheimilunum og að sjálfsögðu sömuleiðis í heimaþjónustunni. Ég vildi koma þessu að í umræðunni um málefni aldraðra.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég enn einu sinni gagnrýna það hvernig staðið hefur verið að samráði við samtök eldri borgara í þessum málaflokki. Samtök eldri borgara hafa kallað eftir því ítrekað og ályktað um það á öllum sínum fundum að lög um málefni aldraðra verði endurskoðuð í heild sinni. Ekki hefur verið orðið við því. Í fyrra spurði ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún hygðist beita sér fyrir heildarendurskoðun á málefnum aldraðra. Hún svaraði því neitandi þá. Núna þegar fór að nálgast kosningar sneri hæstv. ráðherra við blaðinu og tilkynnti í haust að hún ætlaði að setja nefnd á laggirnar til að endurskoða málaflokkinn, allan lagabálkinn um málefni aldraðra. Í dag þegar nokkrar vikur eru til kosninga er ekki enn farið að kalla nefndina saman. Ekki er búið að ganga frá nefndarskipaninni og það er ekki farið að kalla hana saman. Það var ástæðan fyrir því að samtök aldraðra neituðu að koma fyrir heilbrigðisnefnd til að ræða þær lagabreytingar sem við erum með á dagskrá í dag, bæði breytinguna sem sneri að skattlagningunni og sömuleiðis breytinguna sem sneri að vistunarmatinu. Það var ekki vegna efnislegra atriða heldur vegna þess að þau voru að mótmæla því hvernig ríkisstjórnin og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur komið fram við þau, ekki eingöngu sá sem nú situr heldur þeir sem hafa verið í heilbrigðisráðuneytinu á undanförnum árum.

Ég tek undir með þeim þegar þau gagnrýna þetta og væri ástæða til að ríkisstjórnarflokkarnir og fulltrúar þeirra læsu yfir ályktanir frá samtökunum því að þar er gagnrýnt harðlega hvernig komið hefur verið fram við eldri borgara, sérstaklega hvað það varðar að ekki hefur verið orðið við því, eins og lofað var, að farið yrði í endurskoðun laganna um málefni aldraðra. Það er ekki tími til þess núna fram að kosningum, þetta er meiri vinna en svo, og þeir hafa ekki verið kallaðir að borðinu.

Eins og kom fram hjá mér fyrr í ræðu minni geri ég ekki athugasemdir við þær lagabreytingar sem hér er verið að gera, enda skrifum við fulltrúar Samfylkingarinnar undir bæði nefndarálitin sem snúa að þessum lagabreytingum.