133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:02]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir að það á að hafa samráð. Það á að hafa samráð við samtök eldri borgara, það á að hafa samráð við þá hópa sem voru hér til umræðu, öryrkja og aldraða, en samráðið hefur ekki verið nákvæmlega eins og hv. þingmaður lýsti yfir. Samráðið í Ásmundarnefndinni endaði þannig að menn vilja ekki kalla það samning. Þeir segja að þetta hafi verið yfirlýsing, þetta var ekki samningur, þeir voru píndir, þeim var stillt upp við vegg. Þetta eru þeirra eigin orð, bæði í fjölmiðlum og í nefndinni. Þeim var stillt upp við vegg, þeir voru neyddir til að samþykkja þetta vegna þess að þeir vildu ekki að þjónustuþátturinn, aukin þjónusta við aldraða yrði sett út af borðinu. Þeim var hótað, að þeirra sögn og nú er ég bara að hafa eftir það sem þeir upplýstu okkur um, þeim var hótað því að þjónustuþátturinn, sem þeir voru mjög ánægðir með, yrði settur út af borðinu ef þeir tækju ekki lífeyristilboði frá Ásmundi Stefánssyni og félögum og kyngdu því. Þannig var allt það samráð. Í samráðinu var líka lofað að fara yfir ýmsa lagasetningu. Það hefur ekki verið orðið við því. Ég leyfi mér þess vegna að mótmæla því að þarna hafi verið gerður einhver samningur.

Varðandi öryrkjana og skýrsluna sem verið var að kynna þá gefst ekki tími til að ræða það mál í stuttu andsvari því að þar er ýmislegt sem full ástæða væri til að ræða ítarlega á Alþingi. Auðvitað er jákvætt að það eigi að fara að taka á endurhæfingarþættinum. Ég er algjörlega sammála því en annað í örorkumatinu sem felst í þeirri skýrslu og þeim yfirlýsingum leyfi ég mér að efast um að öryrkjar almennt séu sáttir við.