133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:05]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að þræta frekar við hv. þingmann um samkomulagið sem gert var í sumar. Eins og hv. þingmaður man þegar við kölluðum til aðila þess samkomulags og þá sem stóðu að samkomulaginu, m.a. Ásmund Stefánsson, og spurðum nákvæmlega út í hvað þarna fór fram, hvers konar samskipti fóru á milli manna, þá var alveg ljóst að skilningur manna á þeim samskiptum var mjög mismunandi. Ég held að það hafi ekkert upp á sig að reifa það neitt frekar. Þetta er að baki en aðferðafræðin er góð. Ég held að við getum verið sammála um það.

Varðandi hins vegar skýrsluna sem kom fram í vikunni um málefni öryrkja, þá kemur mér á óvart að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir ætli að setja sig í einhverja skotstöðu varðandi það samkomulag vegna þess að Öryrkjabandalagið hefur lýst því yfir að það standi heils hugar bak við þær tillögur sem þar eru fram settar. Það verður því fróðlegt að heyra hv. þingmann fara í andstöðu við Öryrkjabandalagið í því máli. Ég tel þvert á móti að það mál sé til mikilla framfara og komi til móts við helstu kröfur Öryrkjabandalagsins og öryrkja sjálfra um að þeim gefist tækifæri til að taka virkari þátt í samfélaginu en verið hefur án þess að til tekjuskerðingar komi. Að þeir fái að njóta þess að vinna í samræmi við krafta þeirra og starfsgetu og vera virkir þátttakendur í samfélaginu.