133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:36]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér erum við að fara yfir mál sem snertir ríkjandi skattstefnu á Íslandi og ræða mjög óréttlátan skatt. Þetta er nefskattur. Hingað til hefur hann ekki lagst á hluta landsmanna, þ.e. þá 2.200 sem hafa eingöngu tekjur af fjármagni og hafa þess vegna ekki greitt þennan skatt vegna þess að hann hefur verið miðaður við laun.

Þetta frumvarp er að einhverju leyti í átt til þess að auka réttlætið. Þótt þetta sé hænuskref er það samt að koma kerfinu þannig á að þeir 2.200 einstaklingar sem hafa tekjur eingöngu af fjármagni verði einnig látin greiða í þennan sjóð, þennan sjóð sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur að vísu orðið uppvís að því að misnota með því að greiða eitthvert kynningarefni úr honum. En látum það vera.

Hugsum um vegferð þessa skattkerfis. Hvers konar þróun er þetta að verða, að koma hérna á einhverjum nefskatti? Við sjáum að Ríkisútvarpið er að fara sömu leið, rukka nefskatt. Og hér erum við að fara í nefskatt sem leggst með sömu krónutölu á lág laun og há laun. Þess vegna verður hlutfallsleg skattbyrði miklu meiri á þá sem hafa lágu launin. Þó að þetta sé ekki há upphæð endurspeglast í þessu frumvarpi og þessum lögum skattstefna ríkisstjórnarinnar, þ.e. að leggja hlutfallslega þyngri byrðar á þá sem hafa lágu launin en minni byrðar á þá sem hafa háu launin.

Við getum tekið dæmi af manni sem var í fréttum í dag sem hefur á þriðju milljón í mánaðarlaun. Þessi skattur svarar til langt innan við 1% af mánaðarlaunum forstjóra Granda en hjá þeim sem hefur 200 þús. kr. í mánaðarlaun eru þetta kannski 3% af laununum. Með þessari skattlagningu er verið að þyngja skattbyrðina hjá þeim sem eru með lágu launin og aflétta skattbyrðinni af þeim sem hafa háu launin.

Þetta hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar og það hefur komið fram í rannsóknum, m.a. í Háskóla Íslands, að skattbyrðin hefur þyngst mest hjá þeim tekjuhópum sem hafa lægstu launin, þ.e. þeim 20% sem hafa lægstu launin í samfélaginu. Hjá einum hópi hefur skattbyrðin minnkað, þeim sem hefur allra hæstu tekjurnar.

Þetta er þróun sem mér hugnast ekki og ekki okkur í Frjálslynda flokknum. Þó að þetta mál sé að einhverju leyti í átt til réttlætis, þ.e. að þeir sem hafa eingöngu tekjur af fjármagni séu látnir greiða nú 6 þús. kr. í þennan sjóð, er samt sem áður meginmálið eftir, meginóréttlætismálið, sem er að þeir sem hafa eingöngu tekjur af fjármagni greiða ekki krónu til sveitarfélaganna, nánast ekki nema þá e.t.v. til að taka rusl frá húsinu, fasteignagjöld og fyrir ýmsa þjónustu. Það kemur ekki neitt til sveitarfélagsins. Það er algerlega óþolandi. Því er ekkert breytt í þessu frumvarpi. Það er þó verið að færa það í átt til þess réttlætis að þeir sem hafa tekjur eingöngu af fjármagni séu látnir greiða í þennan sjóð.

Ég verð að fagna þessu skrefi þó að það fari í þennan sjóð og ekki sé búið að taka fyrir það að féð renni í aðra þætti en sjóðnum er ætlað að sinna, svo sem eins og útgáfustarfsemi fyrir Framsóknarflokkinn og ráðherra hans. Það er algerlega óþolandi. Það er sérstaklega ólíðandi í því ástandi sem ríkir í málefnum aldraðra í dag, þ.e. að öldruðum sé gert að búa í þvingaðri sambúð á herbergjum með ókunnugum. Það er óþolandi. Mér finnst þetta þannig mál að það sé til skammar fyrir Íslendinga og við eigum ekkert að sætta okkur við það. Að heyra í umræðunni þegar hv. þm. Ásta Möller fer að kenna R-listanum um ástandið, þvílíkt endemi að leyfa sér það.

Auðvitað hlýtur ástandið að vera á ábyrgð stjórnvalda sem hafa ráðið hér mjög lengi, allt of lengi. Vonandi sjá landsmenn að sér og losa okkur við þessa ríkisstjórn. Við getum ekki sætt okkur við það að aldraðir búi við þessar aðstæður. Þetta er algerlega ólíðandi.

Ef við setjum þetta í samhengi við annað sem við verjum peningum okkar í, svo sem sendiráð, eru 1.770 millj. kr. á fjárlögum í þá starfsemi, m.a. í sendiráð í Suður-Afríku. Ekki veit ég til hvers það er. Það er eflaust forgangsverkefni hjá framsóknarmönnum að sinna því en ég get ekki skrifað undir það. Mér finnst það vera verkefni sem við ættum að ýta neðar á forgangslistann. Fyrst eigum við að sinna því fólki sem hefur skilað sínu til þjóðfélagsins, öldruðum, og láta mæta afgangi þau gæluverkefni að búa til í fjarlægum heimshlutum skrifaðstöðu fyrir fólk sem er inn undir hjá stjórnvöldum, svo sem í Jóhannesarborg, undir því yfirskini að því sé ætlað að afla fylgis við það að við komumst inn í öryggisráðið. Mér finnst það ekki vera þess háttar verkefni sem við eigum að einbeita okkur að.

Þegar við ræðum þetta frumvarp finnst mér réttmætt að fara yfir það hvers vegna fjármagnseigendur greiða ekkert til sveitarfélaganna, þeir sem hafa eingöngu tekjur af fjármagni. Þetta er stór hópur, 2.200 manns. Í minni samfélögum blasir óréttlætið við, einhver sem hefur selt atvinnuréttinn, kvótann frá byggðarlaginu sínu, þannig að vinnufúsar hendur fá ekkert að gera og fólk þarf að flytjast í burtu eða sættast á að sækja vinnu um langan veg.

Viðkomandi fjármagnseigandi hefur hins vegar kannski á þriðja tug milljóna árlega í tekjur en ekkert af þeim krónum ratar til sveitarfélagsins, ekki ein króna. Að vísu fara 10% til ríkisins í formi fjármagnstekjuskatts en þetta er eitt af því sem við ættum að ræða samhliða þessu máli hér, að þessi 2.200 manna hópur sé einnig látinn greiða gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Ég ætlaði ekki að vera margorður um þetta frumvarp. Ég tel það til bóta þó að þetta sé bara örlítið hænuskref í því að gera skattkerfið réttlátara en við búum við í dag.