133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:55]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að við hefðum gert gott í að taka upp 25 þús. kr. á mánuði í tekjur sem mundu ekki skerða bætur frá Tryggingastofnun. Hann gleymir að fyrir áramót, í desember, var líka tekið upp að 60% af tekjum aldraðra kæmu til skerðingar en ekki 100%. Það þýðir í reynd að skerðingin er 24% en ekki 45% eins og verið hefur. Þetta var mikið baráttumál eldri borgara og náðist fram. Það eru ekki bara 25 þús. krónurnar heldur allar tekjur sem skerðast minna en verið hefur. Skerðingin er miklu minni en var og að hámarki 24%.

Hv. þingmaður gat um annað sem ég var dálítið undrandi á og ég vildi gjarnan fá að vita nánar hvaðan hann hefur það. Hann sagði að Hagstofan hefði reiknað út 200 og eitthvað þúsund sem lágmarksframfærslu. Nú hefur það verið vandamálið á Íslandi að menn hafa ekki fengið upplýsingar um hvað menn þyrftu að lágmarki til framfærslu enda er svo erfitt að skilgreina hvað þarf, þarf maður bíl, þarf maður utanlandsferð o.s.frv.? Mér er ekki kunnugt um þetta. Ég veit hins vegar að Hagstofan reiknar út meðalframfærslukostnað fyrir einstakling, það er allt, allt annar handleggur. Það hlýtur hv. þingmaður að skilja. Ég býst ekki við því að það sé meiningin.

Síðan talaði hann um áunnar bætur úr Tryggingastofnun. Fyrir langa löngu var tekin upp tekjutrygging hjá Tryggingastofnun til að tryggja þeim sem lægstar hafa tekjurnar ákveðnar lágmarkstekjur ef þeir hefðu ekki tekjur annars staðar. Þetta heitir tekjutrygging og almannatryggingar tryggja mönnum þessar tekjur ef þeir hafa ekki tekjur annars staðar frá, t.d. frá lífeyrissjóði.