133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:57]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði eða talaði um tvennt. Annars vegar var spurt hvaðan ég hefði upplýsingar um þessa lágmarksframfærslu. Ég er að vísu ekki með þær upplýsingar fyrir framan mig en ef mig brestur ekki minni er hægt að finna þær á vef Hagstofu Íslands. Þar eru upplýsingar samkvæmt neyslukönnun sem Hagstofan hefur gert, upplýsingar um þá lágmarksframfærslu eða framfærslu, það getur verið að talað hafi verið um framfærslu en ekki meðalframfærslu. En annaðhvort þarf einstaklingur á að halda framfærslu fyrir brýnustu þörfum til að geta lifað af mánuðinn frá fyrsta degi til þess síðasta. Það er væntanlega hugsunin á bak við þessa könnun og þar er talað um 210 þús. kr. eftir skatt. Þetta má sannreyna.

Þessar 25 þús. krónur sem ríkisstjórnin ákvað á dögunum fyrir áramótin við afgreiðslu fjárlaga er það sem ég hef vitnað í, þ.e. frítekjumarkið, án þess að það skerði bæturnar. Ég hef ekki dregið dul á að ég hef rætt um hinar almennu ellilífeyrisbætur plús tekjutryggingu og heimilisuppbót. Þegar allt er saman talið er það samkvæmt upplýsingum mínum 126 þús. kr. sem viðkomandi ellilífeyrisþegi getur fengið, hafi hann ekki neinar aðrar tekjur.

Ég tel að með þessu hafi ég endurtekið það sem ég var að tala um áðan og hef þessar tölur uppi samkvæmt bestu vitund.