133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:59]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast enn um þessa lágmarksframfærslu upp á 210 þús. kr. Ég hygg að þar eigi þingmaðurinn við neyslukönnun sem gerð var meðal 100 fjölskyldna af öllum tekjustigum. Þar er reiknað út hvað þessar fjölskyldur eyða til framfærslu og tekið af því meðaltal. Ég hygg að það sé málið en það verður bara að láta á það reyna.

Varðandi 25 þús. kr. þá kom frumvarpið þannig fram. En í meðförum þingsins og með vilja ríkisstjórnarinnar var tekin inn sama regla og hjá öryrkjum, að 60% af tekjum koma til skerðingar en ekki 100%, sem þýðir það að skerðingin er 24% yfir allar tekjur sem ellilífeyrisþeginn hefur. Maður sem er með 100 þús. kr. á mánuði í tekjur er í hæsta lagi skertur um 24 þús. kr., ekki 45 þús. kr., sem skerðingin var áður. Þessi skerðing var því stórlega minnkuð með þessari breytingu í meðförum Alþingis og það tel ég vera mikið hagsmunamál fyrir eldri borgara sem geta unnið. Það vill svo til að íslenskir eldri borgarar eru óvenjusprækir á mælikvarða Norðurlandabúa og vinna óvenju mikið. Það er því rangt að tala aðeins um 25 þús. krónurnar.

Varðandi Tryggingastofnun, tekjutrygginguna þar, hv. þingmaður kom ekki inn á það, þá er það ekki áunninn réttur. Tekjutryggingin hjá almannatryggingum, fái menn tekjur annars staðar þurfa þeir ekki tekjutryggingu. Þannig er tryggingin hugsuð. Hún er hugsuð fyrir þá sem ekki hafa neinar tekjur og ekki með lífeyri úr lífeyrissjóði. Þess vegna heitir það líka tekjutrygging.