133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[18:20]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að nefskattur er ófélagslegur og ósanngjarn og ætti eiginlega ekki að vera við lýði. Hins vegar get ég ekki tekið undir með honum í deilu hans á hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem um er að ræða upplýsingarit og ég held að kerfið sé það flókið að ekki veiti af að upplýsa fólk um það sem þar er að gerast.

Gjaldið sem við ræðum hér, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, er þess eðlis að ef menn hafa einni krónu meira í tekjur umfram eina milljón og 80 þúsund rúmar borga þeir 6.300 kr. Ef menn hafa einni krónu minna borga þeir ekki neitt. Þetta er afskaplega ósanngjarnt en það er enn þá ósanngjarnara þegar maður hefur í huga að gjaldið til RÚV hangir með á spýtunni. Ég benti á þetta í sambandi við umræðuna um RÚV að þar borga menn ekki 6 þús. kr. heldur um 19 þús. kr., ef ég man rétt. Ein króna getur því orðið dýrkeypt þegar svo er komið málum.

Ég hef margoft bent á að það væri miklu heilbrigðara og eðlilegra að tengja þessa tvo skatta við persónuafsláttinn sem er líka nefskattur, það er nefskattur sem hver Íslendingur fær og það væri mjög eðlilegt og mjög sanngjarnt að tengja þessa þrjá skatta saman, persónuafsláttinn, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og gjaldið til RÚV. Svo mætti skipta því með lögum á milli þessara aðila, það er enginn vandi.

Það sem ég ætlaði að tala um er fyrirvari. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og fyrirvari minn lýtur að því að fjármagnstekjur, sem mér finnst mjög eðlilegt að komi til skoðunar í þessu sambandi, eru metnar að fullu. Í öðrum dæmum, t.d. í skattlagningu á fjármagnstekjur þá er sá skattur 10% í staðinn fyrir 20% meðalskatt á atvinnutekjur sem var þegar fjármagnsskattur var settur á. Skattur á atvinnutekjur hefur reyndar hækkað ívið síðan, sennilega í 25% af meðaltekjum, þ.e. meðalskatturinn á tekjur fólks, vegna þess að tekjur hafa hækkað svo mikið að það eru fleiri sem borga hærri skatt. Þar var hugsunin sú að fjármagnstekjur ættu vegna eðlis síns að vera skattlagðar til helmings á við launatekjur og var bent á, man ég eftir, að t.d. þegar verðbólga er nokkur eins og núna, 7%, og ef fólk er með 5% fjármagnstekjur af innstæðum þá sé það í rauninni að tapa, þá er það að borga skatt af tapi. Sama á við um húsaleigu, þar er ekki tekið tillit til kostnaðar og skatta á húsnæðið þannig að tekjur af húsnæði eru aldrei jafnháar og jafnmiklar og leigutekjurnar gefa tilefni til þó að þær séu skattlagðar að fullu eða 10%. Sama á við um arð og söluhagnað af hlutabréfum, því að þar er áhætta og mjög margir hafa tapað á hlutabréfamarkaði þó að það fari yfirleitt ekki hátt, menn guma ekki af því þótt þeir tapi á deCODE eða öðru eða á fyrirtækjum sem víða verða gjaldþrota, það kemur ríkinu ekkert við og menn geta t.d. ekki dregið það frá launatekjum sínum.

Af þessum ástæðum var ákveðið að líta á fjármagnstekjur sem hálfgildi við launatekjur. Það er ekki gert í frumvarpinu og það finnst mér ósanngjarnt. Ef við tökum dæmi af gömlum manni sem hefur vexti af sparisjóðsbók sinni, hann er búinn að spara dágott inn á hana og á engar aðrar eignir, hann getur hæglega farið upp fyrir milljón í vöxtum og þá á hann að borga þetta gjald þó að þeir vextir séu í reynd ekki raunvextir og alls ekki sambærilegt við annan sem hefði þetta sem tekjur, því að inneiginin hans rýrnaði vegna verðbólgu og það gerist alltaf, jafnvel þegar verðbólgan er mjög lítil. Ég vildi skoða það í nefndinni að taka bara helming af fjármagnstekjum inn í dæmið eins og er hjá Tryggingastofnun varðandi skerðingu á bótum. Þar eru atvinnutekjur teknar að fullu af þeim nema hjá öldruðum og öryrkjum þar sem aðeins 60% eru tekin af þeim en það er önnur saga, en fjármagnstekjur að hálfu með nákvæmlega sömu hugsun að baki. Mér finnst því dálítið stílbrot í þessu að taka fjármagnstekjurnar að fullu.

Herra forseti. Það hefur nokkuð verið rætt hér í gegnum tíðina um fólk sem borgar bara af fjármagnstekjum og hefur engar aðrar tekjur. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvaða fólk þetta er, hvaða hópar þetta eru. Ég hef ekki fengið svar við því almennilega. Hins vegar fékk ég svar við því um daginn þegar maður hafði samband við mig og kvartaði yfir því að móðir sín fengi engar bætur úr Tryggingastofnun, þær væru skertar að fullu. Ástæðan var sú að móðir hans hafði selt lítið einbýlishús sem hún átti á 40 milljónir sem hún fékk greiddar án þess að borga skatta, án þess að borga fjármagnstekjuskatt. Hún lagði þá peninga inn til ávöxtunar og fór á heimili fyrir aldraða. Hún fékk vegna mjög góðrar ávöxtunar, 20%, 8 milljónir í fjármagnstekjur af þessari upphæð. Þar með var hún komin upp fyrir mörkin hjá Tryggingastofnun, helmingurinn af þessum tekjum, 4 milljónir, var tekinn til frádráttar og hún fékk engar bætur úr Tryggingastofnun en var með 8 milljónir í fjármagnstekjur. Þar er komið dæmi um einstakling sem hefur bara fjármagnstekjur en engar tekjur, hún var ekki með nein réttindi í lífeyrissjóði, ég spurði ekki af hverju.

Það eru eflaust til önnur dæmi sem við þurfum að skoða og ég er alveg á því að þetta þurfi að skoða. Mér finnst ekki eðlilegt að þessar tekjur séu ekki skattaðar, a.m.k. eins og að menn vinni eitthvað. Þetta þarf að skoða en þegar um eldra fólk er að ræða gerum við náttúrlega ekki ráð fyrir að það sé að vinna heldur sé með bætur.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði að ég og hv. þm. Ásta Möller héldum því fram að kerfið væri harla gott. Það held ég ekki, ég held að enginn búist við því að búið sé að finna endanlega lausn á öllum vanda aldraðra eða öryrkja. Hins vegar hefur verið unnið mjög mikið að því á undanförnu kjörtímabili að laga stöðu aldraðra og það er það sem hv. þingmaður átti við og ég nefni alveg sérstaklega frumvarpið sem samþykkt var í desember þar sem skerðingar aldraðra voru minnkaðar stórlega ef þeir vinna eitthvað meðfram þar sem minnkuð voru áhrif tekna maka o.s.frv. Það hafði mjög mikil áhrif, enda kostaði það ríkissjóð marga milljarða eins og þar kom fram. Staðan er ekkert harla góð og það er ýmislegt sem enn má vinna til hagsbóta fyrir aldraða þó að staða þeirra sé mjög misjöfn eins og koma fram í því dæmi sem ég nefndi áðan.