133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

bókhald fyrirtækja í erlendri mynt.

[15:05]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í lögum frá árinu 2006 hafa fyrirtæki haft heimild til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli. Frá því að þetta var samþykkt hafa fjölmörg fyrirtæki nýtt sér þetta, þar á meðal einn banki, Straumur-Burðarás, sem sótti um 31. október 2006 og fékk leyfi 5. desember 2006 fyrir því að færa bókhald sitt í erlendri mynt. En þá brá svo við að maður úti í bæ sem er fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, núverandi seðlabankastjóri, rumskaði og kom í fréttir og sagði m.a. að það hefði aldrei verið ætlun löggjafans að þetta mundi gilda um banka og bankastarfsemi á Íslandi. Það er auðvitað ekki rétt vegna þess að það var aldrei talað um það og er hvergi hægt að finna það í neinum gögnum.

Davíð Oddsson kom svo fram 11. febrúar þegar það fréttist að Straumur-Burðarás hygðist jafnvel ganga enn lengra, skrá hlutafé sitt í evrum og andmælti túlkun seðlabankastjórans með hálfgerðum dulbúnum hótunum. Þá urðu skyndileg sinnaskipti hjá hæstv. ríkisstjórn, og þremur dögum seinna gaf fjármálaráðherra út reglugerð sem takmarkar þetta mjög og setur uppgjörið í töluvert mikið uppnám. Þess vegna langar mig í byrjun, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þetta. Ég var í Þjóðleikhúsinu eins og hann þegar hann tók við skýrslu um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi þar sem m.a. var fjallað svo um markmið og verkefni, með leyfi forseta:

„Nefndin hafði það verkefni að skoða lög og reglur um fjármálastarfsemi, fjármagnsmarkað, skattheimtu og félagaumsvif út frá því sjónarmiði hvort gera þurfi umbætur á löggjöf til að ýta undir alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi …“.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þetta er frá nefnd sem fyrrverandi forsætisráðherra skipaði og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort þessar tæknilegu hindranir sem ríkisstjórnin er að setja upp séu liður og markmið í því að koma hér á alþjóðlegri fjármálastarfsemi og hvernig þetta harmóneri saman við það verkefni.