133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stuðningur við innrásina í Írak.

[15:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Rétt skal vera rétt. Framsóknarflokkurinn er að sveipa þessi mál reyk, hann reynir að þvo hendur sínar í málinu. Við skulum ekki drepa umræðunni á dreif. Það sem fyrrverandi forsætisráðherra, forveri hæstv. ráðherra, segir í blaðaviðtali er að formlegt boð hafi borist íslenskum stjórnvöldum og að ákvörðun hafi verið tekin um að verða við því boði og fá að vera með á listanum yfir hinar staðföstu þjóðir.

Ef þetta er rétt falla dauð og ómerk orð fulltrúa Framsóknarflokksins um að flokkurinn hafi verið misnotaður og ekkert vitað hvað var í reynd að gerast. Hvort það skiptir máli að fara rétt með skal hæstv. ráðherra eiga við sjálfan sig.