133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

áhrif hvalveiða á ímynd Íslands.

[15:23]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í fyrri viku voru sagðar af því fréttir að hæstv. utanríkisráðherra hefði verið á ársfundi Útflutningsráðs og sagt þar að hún teldi rétt að áður en ákvarðanir yrðu teknar um framhald hvalveiða frá Íslandi yrði gerð könnun á áhrifum hvalveiðanna á ímynd Íslands og íslenska viðskiptahagsmuni. Þetta þyrfti að gera mjög vandlega og hafa samráð við atvinnulífið, eins og ráðherrann sagði, um næstu skref í þessum efnum.

Ég fagna þessum ummælum hæstv. utanríkisráðherra og vil í framhaldi af þeim spyrja ráðherrann hvort hún telji með þessu að hvalveiðarnar hafi haft slæm áhrif á ímynd Íslands sem ferðamannalands og viðskiptalands og hvenær megi vænta þessarar könnunar af áhrifum hvalveiða á ímynd Íslands. Hefur ráðherra tekið ákvörðun um að þær fari fram á sínum vegum eða að utanríkisráðuneytið stjórni þeim? Hyggst hún hefja þær í tíma þannig að hægt sé að nota þær við þá ákvörðun sem þarf að taka áður en næsta veiðitímabil á hafinu gengur í garð?