133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

áhrif hvalveiða á ímynd Íslands.

[15:25]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt eftir haft hjá hv. þingmanni, ég lét þessi orð falla á fundi hjá Útflutningsráði og hef reyndar gert það líka áður. Ég tel reyndar að miklu fleiri séu þeirrar skoðunar og almennt séu menn þeirrar skoðunar að áður en ný ákvörðun verði tekin í sambandi við hvalveiðar og sérstaklega þá veiðar á stórhveli þurfi að liggja fyrir svona u.þ.b. hvaða áhrif það hefði á ímynd þjóðarinnar og hvaða áhrif það hefði á atvinnulífið og viðskiptalífið að við höldum áfram hvalveiðum.

Það hafa borist fréttir af því, og eiginlega má segja óskir frá ákveðnum fyrirtækjum sem eru stór á markaðnum og telja, réttilega, að ímynd Íslands breytist í sambandi við starfsemi þeirra, sem er þá á alþjóðavísu, við það að við höfum hafið hvalveiðar. Hins vegar liggur ekkert fyrir um það. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það að gera könnun á áhrifunum er ekkert einfalt mál. Engu að síður eigum við einstaklinga sem eru sérstaklega menntaðir á því sviði að reyna að átta sig á hlutum sem þessum og ég tel alveg sjálfsagt að nýta sér þá krafta til þess að við förum ekki út í frekari veiðar — og þá er ég að tala um nýjar ákvarðanir, það er í sjálfu sér ekki búið að ljúka þeim veiðum sem samþykktar hafa verið — nema við vitum meira um áhrifin.