133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

áhrif hvalveiða á ímynd Íslands.

[15:27]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna þessu svari eins langt og það náði. Ég saknaði þess þó að ráðherrann skyldi ekki tilkynna hvenær þessar rannsóknir hæfust á vegum utanríkisráðuneytisins. Ég skil það svo að hún hafi í þessu svari í raun og veru sagt frá því að utanríkisráðuneytið ætlaði að standa að þeim.

Ég fagna því líka sem áhugamaður um þessi mál að ráðherrann skuli óbeint hafa tekið undir þá gagnrýni mína á skýrslu frá samgönguráðherra um þetta efni, sem barst þinginu 17. mars 2005 en beðið var um af minni hálfu og átta annarra samfylkingarmanna 16. okt. 2003, að hún sé gagnslaust plagg. Það er greinilegt að þessi skýrsla hefur ekki nýst við þær athuganir sem utanríkisráðherra hefur reynt á þessum áhrifum. Ég hvet hana til að segja okkur frá því hvenær hún (Forseti hringir.) ætli að hefja þetta starf og með hvaða ráðum það verði gert.