133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

áhrif hvalveiða á ímynd Íslands.

[15:28]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Ég verð að viðurkenna, forseti, að þetta veldur mér nokkrum vonbrigðum vegna þess að ég taldi liggja í svari ráðherrans áðan að hún ætlaði einmitt að hefjast handa fyrir kosningar. Það hefur auðvitað vakið athygli í þessu máli að sú ákvörðun sem tilkynnt var að ríkisstjórnin hefði á sínum tíma tekið virðist hafa verið ákvörðun eins manns, hæstv. sjávarútvegsráðherra Einars K. Guðfinnssonar.

Frá því að hún var tekin hafa þrír ráðherrar Framsóknarflokksins gert við hana sérstakar athugasemdir, fyrst hæstv. umhverfisráðherra sem lýsti fyrirvara sínum við ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar á sínum tíma, næst hæstv. landbúnaðarráðherra sem gerði alvarlegar athugasemdir við afleiðingar þessarar ákvörðunar hæstv. sjávarútvegsráðherra á markaði fyrir landbúnaðarvörur erlendis. Loks hefur Valgerður Sverrisdóttir í raun og veru lýst því yfir að þessar hvalveiðar hafi slæm áhrif á ímynd Íslands erlendis og þar með á athafnir atvinnulífsins ytra.

Ég spyr: Er ríkisstjórnin einhuga um þessa ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra?