133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:03]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Frú forseti. Vangaveltur hv. þingmanns um tilurð þessa frumvarps eru fullkomlega tilhæfulausar. Það er eins og fyrri daginn. Það er gaman að velta sér upp úr formsatriðum þegar menn hafa ekkert efnislegt til málanna að leggja. Frumvarp þetta er þingmannafrumvarp. Við hefðum auðvitað getað flutt það sem ríkisstjórnarfrumvarp, fyrir því var engin fyrirstaða og þingflokkar stjórnarflokkanna beggja standa á bak við málið sem við formennirnir flytjum.

Það er ótrúlegt að byrja þessa umræðu á því að velta sér upp úr formsatriðum varðandi það hverjir flytja málið. Það er flutt sem þingmannafrumvarp í samræmi við gamla venju um það efni eins og ég rakti í framsögu minni.