133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyrði þessi orð en ég heyrði einnig vangaveltur hæstv. forsætisráðherra um að margir lögspekingar teldu að hinn langi notkunarréttur útgerðarmanna á varanlegu framsali og leigu væri smátt og smátt að festa rétt þeirra til nýtingar í sessi, þ.e. eignarrétt eða óbeinan eignarrétt.

Ég held að úr því að það er meining forsætisráðherrans, sem hann ítrekaði hér úr ræðu sinni, að svo eigi ekki að vera í framtíðinni að íslenskir útgerðarmenn eigi fiskinn í sjónum, óveiddan, eigi að marka því skýran lagatexta í frumvarpinu sem hér er um að ræða.

Ég held að það hljóti að vera hlutverk nefndarinnar sem fær þetta mál til meðferðar, að lagfæra það.