133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:35]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í ræðu minni að það hefðu verið deilur allt frá því að kvótakerfið var sett á en jafnframt hélt ég því fram að það væri kannski ekki kvótakerfið sjálft sem væri vandamálið, heldur hvernig kvótanum var úthlutað á sínum tíma og hvernig staðið var að málum þegar kvótakerfinu var komið á, og að þjóðin hefði aldrei getað sætt sig við það hvernig kvótanum var einhliða úthlutað til útgerðarfélaganna en ekki til byggðarlaga, ekki til sjómanna, ekki til landverkafólks sem fékk hvorki hlutdeild í sjálfum kvótanum né í auðlindarentunni. Þetta var inntakið í því sem ég sagði og ég benti einmitt á Vestfirði í þessu sambandi, að þeir gætu sagt skuggahliðina á þessu máli. Ég held að það sé ekki sjálft kvótakerfið, heldur útfærsla þess og hvernig staðið var að verki.