133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:11]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var um margt athyglisverð ræða hjá hv. þingmanni. Nú er það svo að bæði beinn eignarréttur og óbein eignarréttindi njóta verndar skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar og þetta er í sjálfu sér ágætlega útskýrt í 3. mgr. í greinargerð með því frumvarpi sem við erum að ræða. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að ræða það frekar.

Við hv. þingmaður erum sammála um að auðlindir náttúrunnar, og þar með taldar auðlindir hafsins, séu í þjóðareign en það breytir því hins vegar ekki að heimilt er að mæla fyrir um það í almennum lögum hvernig þessar náttúruauðlindir skuli nýttar. Ég vek athygli hv. þingmanns á síðustu málsgrein í greinargerð með frumvarpinu þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er með frumvarpinu áréttað að þótt ríkisvaldið hafi heimildir til að mæla með lögum fyrir um nýtingu auðlinda til hagsbóta fyrir þjóðina sé slíkt ekki því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum. Eðli málsins samkvæmt leiða slíkar heimildir ekki til óafturkallanlegs forræðis einstakra aðila yfir þeim, sbr. 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga, nr. 116/2006, þótt þær kunni að njóta verndar sem óbein eignarréttindi.“

Örvænting stjórnarandstöðunnar kom fram þegar hún neitaði að taka málið hér á dagskrá sl. föstudag og mér heyrðist enn þá vera einhverjar vöflur á hv. þingmanni með hvort ætti að afgreiða málið á þessu þingi. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hv. þingmann hvort hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætli að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins á þessu þingi og leggjast þar með á sveif með Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Sambandi ungra sjálfstæðismanna.