133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fullyrti í máli mínu ekkert um það hvort það hefði gildi að hér er eingöngu vitnað í eina tiltekna grein stjórnarskrárinnar öfugt við það sem auðlindanefnd gerði á sínum tíma. Ég spurði hins vegar hvort það væri tilviljun og hvort það hefði gildi. Það má vel velta fyrir sér hvort ekki hefði verið eðlilegra að gera þeim þá öllum jafnhátt undir höfði. Ég hefði frekar kosið það, það hefði þá verið hafið yfir allan vafa að þarna væri verið að raska nokkru.

Varðandi afstöðu til þessa máls og hver okkar afstaða verður til meðferðar þess hér í þinginu veit ég að svar mitt mun valda hv. þingmanni miklum vonbrigðum — hann mun hugsanlega ekki skilja það — vegna þess að svarið er: Við munum skoða þetta mál mjög vandlega efnislega og ábyrgt og það ræður afstöðu okkar til þess hvað varðar atkvæði og/eða afgreiðslu þess.

Þetta mál er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, það er hún sem afþakkaði samstarf um það. Það eru formenn stjórnarflokkanna sem brutu hér órofa hefð lýðveldistímans með að henda inn stjórnarskrárbreytingu af þessu tagi án þess svo mikið sem að tala við aðra stjórnmálaflokka í landinu. Sá er veruleikinn. Sú afsökun, það skjól, að þeir hafi neyðst til þess af því að stjórnarandstaðan sendi frá sér fréttatilkynningu og bauð henni upp á samstarf er einhver sú aumkunarverðasta sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Það er bara þannig, það blasir við. (Gripið fram í.)

Jafnvel útúrsnúningameistari stjórnarliðsins, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, mun ekki fá því breytt að þessi veruleiki blasir við öllum. Hann er algerlega kristaltær, hann er skjalfestur og liggur fyrir í tímasettri atburðarás þessa máls. Ábyrgðin er þarna og hvergi nema þarna, á herðum hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og ég spái því að þegar frá líður verði þeir ekkert sérstaklega stoltir af þessum kafla í stjórnmálaþátttökusögu sinni.