133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ekki úr vegi að fara hér nokkrum orðum um aðdraganda þessa máls. Ef ég man rétt eru þau orð að setja eigi inn í stjórnarskrána ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar búin að standa lengi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er ekki að koma upp núna, hæstv. forseti, í marsmánuði á árinu 2007 þannig að ríkisstjórnin er búin að hafa langan tíma til að koma með ákvæði hér inn í hv. Alþingi í þessa veru hafi vilji hennar og ásetningur verið að gera slíkt.

Lögin um stjórn fiskveiða hafa í langan tíma valdið miklum ágreiningi, nánast frá því að þau voru sett eða við fórum að vinna eftir þeim á árinu 1984. Í fyrsta lagi hefur ágreiningurinn snúist um það að aðeins vissum hluta þeirra manna sem stunduðu þessa atvinnugrein, þ.e. íslenskum útgerðarmönnum, var fenginn rétturinn. Hann hefur í þeirra höndum fengið að þróast þannig, með vilja meiri hluta löggjafans á hverjum tíma, að í dag selja íslenskir útgerðarmenn sín á milli veiðiréttinn eða leigja hann og fénýta að öllu leyti og loka þannig í raun og veru af það sem menn tala um sem almennt atvinnufrelsi í öðrum atvinnugreinum, þ.e. að 75. gr. sé virt um það að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa sér og þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Kvótalögin voru á sínum tíma sett á vegna þess að menn töldu almannarök fyrir því að þurfa að draga úr fiskveiðum. Jafnframt var reynt að útfæra þau þannig að það mætti halda uppi sem mestri atvinnu í landinu og bendi ég framsóknarmönnum alveg sérstaklega á að lesa ræðu hæstv. fyrrverandi forætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar sem hann flutti þegar lagafrumvarpið var hér til umræðu á sínum tíma árið 1984. Þá var meginmarkmiðið auðvitað að halda uppi fullri atvinnu í landinu og dreifa aflaheimildum þannig að hagur sjávarbyggða og hagur fólks í þeim gæti verið sem mestur. Með ýmsum hætti var leitast við að fiskiskipin gætu haldið áfram veiðum og að atvinnu yrði haldið uppi í byggðarlögunum.

Það hefur svo gerst í tímans rás, hæstv. forseti, að nýtingin á veiðiheimildunum og samþjöppun hefur leitt til þess að atvinnuréttur byggðanna og atvinnuréttur fólksins í sjávarbyggðunum hefur verið fyrir borð borinn. Eignir fólks í sjávarbyggðum hafa verið gerðar verðlausar og atvinna fólksins hefur horfið í sumum byggðum. Það er ekkert atvinnuöryggi til í byggðunum og þar fyrir utan þurfa þeir sem vilja reyna að komast af stað í þessari atvinnugrein að gerast leiguliðar þeirra sem aflaheimildirnar hafa í dag, þ.e. útgerðarmanna. Megnið af því verðmæti sem þeir draga úr sjó gengur sem sagt sem greiðsla fyrir að fá að stunda þessa atvinnu sem öllum ætti þó að vera frjáls. Þó að menn hafi viðhaldið þessum lögum er ekki hægt að færa fyrir því rök að endalaust megi takmarka atvinnufrelsi manna eins og gert hefur verið varðandi sjávarauðlindirnar, fiskstofnana, með því að láta vissa menn hafa þar forgang og að þeir fái því ráðið. Það er auðvitað ekki við íslenska útgerðarmenn að sakast, það er við okkur að sakast sem höfum sett lögin, þeir sem hafa stutt þau á hverjum tíma bera auðvitað ábyrgð á því.

Í lögum um stjórn fiskveiða segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Ef það er skýr vilji ríkisstjórnarflokkanna að tryggja það inn í framtíðina að ekki myndist frekari einkaeignarréttur á auðlindum sjávar eða náttúruauðlindum en orðið er, þ.e. þeim náttúruauðlindum sem menn hafa ekki bein eignarráð yfir eins og menn hafa eignarráð yfir löndum sínum og jörðum, eiga menn auðvitað að setja inn í tillöguna ákvæði um það að náttúruauðlindirnar séu sameign íslensku þjóðarinnar, þjóðareign, eins og það var skilgreint í skýrslu auðlindanefndar á sínum tíma. Þó tek ég það fram hér, hæstv. forseti, að Frjálslyndi flokkurinn átti ekki aðild að svokallaðri auðlindanefnd. Menn eiga að setja það inn og skilgreina að þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Þannig mundu menn styrkja það ákvæði sem núna er í lögunum um stjórn fiskveiða, að veiðiheimildir séu í lögum þessum sameign íslensku þjóðarinnar og myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði.

Með því að gera það ekki, hæstv. forseti, — verð ég nú að taka fram að ég er ekki lögfróður maður en tel að ég geti lesið ágætlega textann og hafi í gegnum tíðina fylgst nokkuð vel með því hvernig þessi lög um stjórn fiskveiða hafa þróast — eru menn í raun og veru að veikja það ákvæði sem núna er í lögum um stjórn fiskveiða sem segir fyrir um það að veiðiheimildirnar myndi ekki „eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“. Þá væri verið að veikja sameignarákvæðið. Þess vegna hlýtur það að vera krafa að við vinnslu á því máli sem hér er til umræðu verði sérstaklega hugað að því að taka inn í tillögurnar ákvæði sem segir að eigi megi selja eða láta varanlega af hendi þjóðareign og hafa svo skilgreiningu á þjóðareigninni. Sú skilgreining er reyndar til í skýrslu auðlindanefndar að ég hygg þó að ég sé ekki með hana hér fyrir framan mig.

Við í Frjálslynda flokknum höfum gert upp hug okkar í því að verulega þurfi að lagfæra þá tillögu sem ríkisstjórnin er hér með. Við munum leggja fram breytingartillögu við þetta mál sem tekur þá til þess að náttúruauðlindir Íslands, sem eru þjóðareign, skuli ekki mega selja eða láta varanlega af hendi, það sé alveg skýrt markmið, og að einnig sé tekið tillit til þess að jafnræðisreglan og atvinnufrelsið sé virt í 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar ásamt því að vitna til 72. gr. Þetta höldum við að sé alveg bráðnauðsynlegt, hæstv. forseti, vegna þess að það ríkir ekki jafnrétti í þessum málum. Það getur enginn haldið því fram í þessum sal að það sé jafnrétti milli manna á Íslandi til að sækja fiskinn í sjóinn, það er ekki svo. Menn þurfa að greiða öðrum handhafa en ríkinu, sem er þó talið eiga sameignina, gjald, miklu hærra gjald en það sem hér hefur oft verið kallað auðlindagjald eða auðlindarenta. Það er ekki neinum manni bjóðandi að ætla að reyna að koma undir sig fótunum í útgerð með því að þurfa að greiða öðrum aðila 180 kr. leiguverð fyrir kílóið.

Þess vegna er það mikið mál, hæstv. forseti, að við tryggjum þetta í lagagreinunum ef það ákvæði sem hér er á að verða að lögum. Við munum leggja það til í Frjálslynda flokknum að þetta verði gert skýrara og markvissara en hér er sett á blað frá ríkisstjórninni.

Að sjálfsögðu má veita einstaklingum og lögaðilum tímabundna heimild til afnota eða nýtingar á auðlindum og þá gegn gjaldi. Það er eðlilegt og sjálfsagt. Eignarréttur íslensku þjóðarinnar á auðlindum sínum verður þó að vera tryggður. Þess vegna var það sem við þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar lýstum því yfir í síðustu viku að við værum tilbúnir að leggja ríkisstjórninni lið við að koma ákvæði inn í stjórnarskrána sem tryggði að náttúruauðlindir Íslands væru þjóðareign og hana mætti ekki láta af hendi eða selja varanlega. Það er vegna þess, hæstv. forseti, að það er ekki jafnrétti í reynd í þessum málum og það er heldur ekki virkt atvinnufrelsi í þessari grein. Við viljum tryggja það enn frekar en nú er að í fyrsta lagi sé ljóst að íslenska þjóðin eigi þennan rétt, í öðru lagi að horft sé til jafnréttissjónarmiða og í þriðja lagi að atvinnufrelsið verði virt. Það er ekki boðlegt að áratugum saman sé mönnum nánast lokuð leiðin inn í sjávarútveginn vegna þess hvernig fyrirkomulagið er við nýtingu þessara náttúruauðlinda.

Það er ekki að ástæðulausu sem lögin um stjórn fiskveiða, kvótalögin, hafa verið svo umdeild á undanförnum árum. Það er vegna þess að menn sjá afleiðingarnar, menn sjá óvissuna. Við búum til byggðaáætlanir, við samþykkjum byggðaáætlanir, við búum til áætlanir um að byggja upp hér í landinu en á sama tíma drögum við undan sjávarbyggðunum rétt þeirra til að bjarga sér. Slík útfærsla er algjörlega óásættanleg. Tillagan verður sem sagt að styrkja þau ákvæði sem fyrir eru í lögum um stjórn fiskveiða, um sameignarrétt þjóðarinnar, að öðrum kosti er verr af stað farið en heima setið, hæstv. forseti.

Við höfum sagt um sjávarútvegsstefnuna almennt í Frjálslynda flokknum í fyrsta lagi

að í reynd verði það virt að fullu að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar,

að réttur byggðanna til nýtingar aðliggjandi fiskimiða sé virtur,

að jafnræði og sanngjörn samkeppnisskilyrði ríki í sjávarútvegi, bæði í veiðum og vinnslu,

að eðlileg nýliðun sé möguleg þannig að framtak dugmikilla einstaklinga fái notið sín og

að lög um fiskveiðistjórn tryggi hagkvæma og skynsamlega nýtingu fiskimiðanna.

Við í Frjálslynda flokknum teljum að því miður nái ekki núverandi löggjöf þeim markmiðum og sú framkvæmd sem fylgt hefur í kjölfarið og við höfum þurft að búa við í mörg undanfarin ár. Okkur hefur ekki tekist að byggja upp okkar aðalfiskstofna og við sitjum uppi með það að meðaltalsaflinn sem úthlutað er til veiðanna á hverju ári í þorski liggur á bilinu 160–190 þús. tonn árum og áratugum saman.

Það er oft talað um það, hæstv. forseti, að íslenskir útgerðarmenn hafi verslað með þennan rétt sín á milli og þar af leiðandi hafi þeir myndað sérstakan eignarrétt. Það er auðvitað rétt að það þarf að hafa af því áhyggjur og þess vegna þarf að setja inn í stjórnarskrána ákvæði eins og ég mæli hér fyrir. Það er vegna þess m.a. að smátt og smátt getur myndast hefðarréttur á þeirri aðferð sem notuð hefur verið og þar með eignabönd og þarf ekki að vitna lengra en í lög um hefð frá 1905 þar sem fjallað er um hefðarréttinn og hvernig hann kemur til. Þess vegna er það að þegar til stendur að setja inn í stjórnarskrána ákvæði eins og við ræðum hér þarf það að vera ákaflega skýrt, svo skýrt að enginn efist um það að ákvæðinu sé ætlað að styrkja eignarréttarákvæði íslensku þjóðarinnar og það sé verið að festa það í sessi að íslenska þjóðin eigi auðlindirnar, hún geti auðvitað ráðstafað þeim með lögum til nýtingar en að öðru leyti eigi hún auðlindirnar og geti tekið fyrir þær gjald.

Þetta held ég að sé meginmál við umræðu þessa máls. Ég tel að það sé betra heima setið en að fara með ákvæðið í gegnum Alþingi eins og það er fram sett hér í tillögu formannanna þrátt fyrir þær skýringar sem hæstv. forsætisráðherra gaf áðan.

Hæstv. forseti. Ævinlega koma út skýrslur af og til sem sýna byggðaþróun á Íslandi. Ég er hér með eina sem kom út í janúar 2007 og hún sýnir svart á hvítu, því miður, að það er mikil fækkun í mörgum byggðum, einkum þeim byggðum sem hafa byggt afkomu sína m.a. á sjávarútvegi, mikil fækkun íbúa á Vestfjörðum og á norðausturhorni landsins svo að dæmi séu tekin, reyndar einnig á suðausturhorni landsins. Það getur enginn með sannleika í hjarta haldið því fram að fiskveiðistjórnarlögin hafi ekki áhrif á byggðirnar í landinu og að ekki sé ástæða til að huga að þessum lögum. Við í Frjálslynda flokknum höfum þess vegna alveg skýra afstöðu um það að þessum lögum um stjórn fiskveiða þurfi að breyta og þegar við setjum inn ákvæði í stjórnarskrána sem lúta að þessum rétti, nýtingarréttinum og sameign þjóðarinnar, þurfi það að vera það skýrt að það sé ekki neinum vafa undirorpið hvað við erum að gera. Að okkar viti eigum við að festa eignarréttarákvæði þjóðarinnar í sessi og enn fremur þarf að endurskoða margt annað í sambandi við lögin um stjórn fiskveiða.

Á fundi nýverið þar sem við vorum að fjalla um mál og málefni sagði ég m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ákvæði um auðlindir landsmanna, sem teljast sameign þeirra, á að setja í stjórnarskrá sem og það að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum. Um nýtingu auðlinda þarf að gæta jafnræðis og marka þarf nýtingunni réttlátar lagareglur sem tryggja atvinnurétt fólks í sjávarbyggðum.“

Það er auðvitað óviðunandi til framtíðar að eingöngu atvinnuréttur íslenskra útgerðarmanna hafi verið viðurkenndur með lögunum um stjórn fiskveiða og þeir eigi þar nánast allan rétt. Fiskvinnslufólkið í byggðunum á engan rétt, það getur ekki varið eignir sínar, ekki selt þær þegar atvinnurétturinn er farinn, þetta er eignaupptaka á bæði atvinnurétti þess og afkomu.