133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:47]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Frumvarp það sem hér er til umræðu fjallar um þjóðareign Íslendinga á náttúruauðlindum Íslands. Frumvarpið er sögulegur og mikilvægur áfangi sem hefur að baki áralangan aðdraganda. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir vandaða framsögu hans og ekki síður fyrir samstarfið við undirbúning málsins.

Frumvarpið er útfærsla á sameiginlegri niðurstöðu beggja stjórnarflokkanna sem náðist reyndar fyrir mörgum árum og hefur verið rædd og undirbúin um langt árabil. Nægir í því efni að vísa til álitsgerðar svonefndrar auðlindanefndar sem út kom í september árið 2000. Frumvarpið sem hér er rætt er beinlínis byggt á ákvæði stjórnarsáttmálans en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar.“

Texti frumvarpsins sýnir nokkrar markverðar breytingar og viðbætur frá orðum stjórnarsáttmálans. Eru þær helstar að í frumvarpinu er fjallað almennt um allar náttúruauðlindir Íslands en ekki aðeins um auðlindir sjávar. Kveðið er á um þjóðareign en ekki sameign. Vísað er til réttinda samkvæmt eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og kveðið er á um heimildir til afnota eða hagnýtingar á auðlindunum samkvæmt lögum.

Megintilgangur frumvarpsins er að staðfesta eign þjóðarinnar á auðlindunum og að staða nýtingarheimilda haldist óbreytt þannig að nýtingarheimildir, t.d. fiskveiðiheimildir, verði ekki, hvorki nú né síðar, háðar beinum eignarrétti heldur séu og verði áfram afturkræfur afnotaréttur. Ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í þessari umræðu um einhvers konar stefnubreytingu í þessu efni eru alveg fráleit.

Í greinargerð er þetta m.a. orðað svo að nýtingarheimildir, og ég vitna orðrétt: „munu ekki leiða til beins eignarréttar“. Enn fremur segir í greinargerðinni, og ég vitna aftur: „Eðli málsins samkvæmt leiða slíkar heimildir ekki til óafturkallanlegs forræðis einstakra aðila yfir þeim, sbr. 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga, nr. 116/2006, þótt þær kunni að njóta verndar sem óbein eignarréttindi.“

Hér verður því ekki, hvorki nú né síðar, um beinan eignarrétt eða neins konar fullnaðarafsal að ræða varðandi nýtingarheimildir einstaklinga og lögaðila á auðlindunum enda þótt þær geti notið verndar sem óbein eignarréttindi. Jafnframt er auðvitað ljóst að löggjafarvald Alþingis er ótvírætt til að ákvarða nánara um tilhögun og nánari útfærslu vegna afnota og hagnýtingar samkvæmt sérstökum lögum sem löggjafinn kann að kjósa að setja um þau efni.

Það er mjög mikilvægt að kveða á um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskránni. Með slíkum hætti eru settar skýrar grundvallarreglur um þetta úrslitamikilvæga málefni þjóðarinnar. Þar með er fyllsta öryggi tryggt og stöðugleiki um þessi mikilvægu réttindi og eigur þjóðarinnar.

Stjórnarskrárákvæðið sem hér er til umræðu er almennt, stutt og skýrt eins og vera ber í stjórnarskrá. Það er stefnumiðað í þeim skilningi að unnt er að draga víðar samfélagslegar og lagalegar ályktanir af því eins og vera ber um stjórnarskrárákvæði.

Eins og margsinnis hefur komið fram eru kunn dæmi um hugtakið „þjóðareign“ sem ríkisvaldið annast um. Nægir í því efni að vísa til þingsályktunar Alþingis frá 2. júní 1998 og til tillögu auðlindanefndar að stjórnarskrárákvæði frá árinu 2000.

Það er vel viðeigandi líka að þetta hugtak og ákvæði styðst við lögin um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004. Þar segir m.a. að Þingvellir séu, og ég leyfi mér að vitna í lagatextann, „ævinleg eign íslensku þjóðarinnar“.

Rökræður lögfræðinga um þessi hugtök, sameign þjóðar eða þjóðareign eða ríkiseign eða önnur sambærileg, hafa lengi staðið og munu vafalaust halda áfram um langt árabil inn í framtíðina. Það er ekki verkefni löggjafans að hlaupa eftir þeim, beygja sig fyrir þeim eða bíða eftir því sem aldrei verður, nefnilega að lögspekingar komist að einni sameiginlegri niðurstöðu. Löggjafinn er uppspretta laganna og réttarins og verkefni lögspekinga er það helst síðan að vinna áfram á þeim lagalega grundvelli sem löggjafinn mótar. Mér dettur ekki í hug að gera lítið úr rökræðum lögspekinga enda þótt ég telji ástæðu til að minna á eðlilega hlutverkaskiptingu í lýðræðis- og þingræðisþjóðfélagi.

Viðfangsefnið „þjóðareign“ má einnig nálgast með öðrum hætti til skýringar og skilnings. Hugtakið og raunveruleikinn þjóðareign felur það nefnilega líka í sér að eignartilkalli allra annarra aðila, nú eða síðar, er hafnað og hrundið. Eignartilkalli einkaaðila, hvort sem eru einstaklingar, lögaðilar, samtök eða aðrir, stórfyrirtæki, gróðaöfl eða erlendir aðilar, hugsanlegu eignartilkalli eða yfirráðatilburðum allra slíkra er hafnað og hrundið í eitt skipti fyrir öll. Sú höfnun skiptir mjög miklu máli og það öryggi sem stjórnarskráin veitir. Hér verður því ekki um neins konar réttaróvissu að ræða.

Fullveldisréttur og sameiginleg ábyrgð allrar íslensku þjóðarinnar á náttúruauðlindum ættjarðarinnar eru ítrekuð og verða samkvæmt frumvarpinu staðfest í stjórnarskrá Íslands. Þetta er sögulega mikilvægur atburður í gervallri sögu íslensku þjóðarinnar. Með þessu öðlast náttúruauðlindir Íslendinga nýja stöðu. Auðlindir þjóðarinnar á Íslandsmiðum fá nýja stöðu, t.d. andspænis erlendum samningsaðilum. Nægir að minna á það að fiskveiðikerfi Evrópusambandsins grundvallast á því að ekki var um eiginlegan skilgreindan eignarrétt að ræða á fiskstofnum við strendur Evrópu. Meðal annars þess vegna eru ákvæði um fiskveiðistjórn Evrópusambandsins ólík viðhorfum þar á bæ til auðlinda í og á jörðu, náma, skóga, fljóta o.s.frv.

Með því stjórnarskrárákvæði sem hér verður sett öðlast náttúruauðlindir Íslands alveg nýja og trausta stöðu með staðfestingu í stjórnarskrá Íslands. Þetta er meginefni frumvarpsins, þjóðareign á auðlindum og óbreytt staða nýtingarheimilda sem ekki geta og ekki munu leiða til beins eignarréttar heldur eru og verða áfram afturkallanlegar samkvæmt lögum þar um.

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur verið rætt og um það ritað og fjallað árum saman. Nú fer það til umfjöllunar í þingnefnd og er þess að vænta að hún geti lokið áliti á skömmum tíma með vandaðri málsmeðferð. Málið hefur verið rætt og verður áfram rætt meðal lögspekinga og áhugamanna á komandi árum og áratugum og þarf þetta í sjálfu sér ekki að tefja afgreiðslu Alþingis á þessu frumvarpi.

Flutningsmenn frumvarpsins og ríkisstjórnin hafa boðið og bjóða stjórnarandstæðingum sem fyrr til samstarfs um þetta mál. Var það m.a. gert á fundi formanna flokkanna í síðustu viku. Miðað við ummæli og yfirlýsingar margra hv. þingmanna má ætla að slíkt geti vel orðið. Þannig sögðu forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, á fjölmiðlafundi fyrir nokkrum dögum að þeir væru reiðubúnir til að aðstoða og styðja við frumvarp sem byggt yrði beinlínis á orðum stjórnarsáttmálans. Í frétt um þennan fjölmiðlafund kemur m.a. fram að fyrir liggi nú þegar „fullnægjandi grundvöllur til að ljúka málinu“ eins og þar segir orðrétt.

Í frásögn Morgunblaðsins um fjölmiðlafundinn segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Sögðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem jafnframt hafa verið fulltrúar hennar í stjórnarskrárnefnd, að í raun væri hægt að setja inn í stjórnarskrána ákvæði með því orðalagi sem notað er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem stendur, „ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá“.

Þá tóku fulltrúar stjórnarandstöðunnar fram að þar sem mikilvægt væri að ljúka þessum breytingum væri mögulegt að gera það með svo einföldum hætti ef vilji væri fyrir hendi …“

Nú er slíkt frumvarp einmitt fram komið til umfjöllunar og afgreiðslu. Verður því að vænta þess að hv. þingmenn allra flokka muni að sjálfsögðu styðja þetta frumvarp samkvæmt þessu og í samræmi við m.a. fréttatilkynningu þingflokka stjórnarandstöðunnar frá 5. mars sl. Reyndar var þessi fjölmiðlafundur stjórnarandstæðinga öðrum þræði sýning á ömurlegum óheilindum eins og ég nefndi á fyrra fundi í þinginu. Ég vona að stjórnarandstæðingar hafi nú sjálfir áttað sig á því að óheilindi af því tagi hitta aðeins þá sjálfa fyrir.

Hæstv. forseti. Við erum reiðubúin til að setja þetta alveg að baki og ganga til heiðarlegs samstarfs við alla um afgreiðslu þessa mikilvæga máls. Við leggjum mjög þunga áherslu á fullnaðarafgreiðslu þess á þinginu. Við hljótum að trúa því að hv. stjórnarandstæðingar gangi til samstarfs um þetta mikla mál. Inntak frumvarpsins er alveg ljóst, enn og aftur, þjóðareign á náttúruauðlindum ættjarðarinnar og óbreytt staða nýtingarheimilda þannig að óbein eignarréttindi sem þegar kunna að vera fyrir hendi munu ekki breytast, hvorki nú né síðar, og ekki leiða til beins eignarréttar. Heimildirnar eru og verða framvegis afturkræfar og ekkert fullnaðarafsal.

Þetta er það stefnumið sem ríkisstjórnin hafði sett sér. Miðað við yfirlýsingar annarra stjórnmálamanna hlýtur að myndast um það víðtæk sátt. Ég heiti á alla hv. þingmenn að veita þessu merka máli brautargengi til fullnaðarafgreiðslu.