133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hélt hér fram að þetta frumvarp mundi ekki leiða til óafturkallanlegs forræðis einstakra aðila og las sérstakar setningar úr greinargerðinni þar að lútandi. Ég spyr hæstv. ráðherra hvers vegna hann hafi ekki lesið það sem segir síðar á sömu blaðsíðu og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“

Þetta er algjörlega þveröfugt við það sem stendur fyrr á síðunni. Þetta er nú það ákvæði í greinargerðinni sem stendur hvað mest í mér, ásamt að vísu nokkrum öðrum. Hæstv. ráðherra býður til samstarfs. Ja, stjórnarandstaðan er til samstarfs, og grundvöllurinn er fyrir hendi. Það er skýrsla auðlindanefndar og sá röklegi aðdragandi að tillögunum sem þar er að finna. Þar voru meginákvæðin tekin út í þessu frumvarpi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju voru þau tekin út?