133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. ráðherra segir að þetta leiði ekki til beins eignarréttar. Er það þá þannig að hæstv. ráðherra væri reiðubúinn til að slá í gadda til samkomulags við stjórnarandstöðuna að í meðferð þingsins gætum við náð sátt um að sett yrði inn í ákvæðið að auðlindir í þjóðareigu mætti ekki selja eða láta með varanlegum hætti af hendi? Sömuleiðis að hægt væri að láta afnotaréttinn af hendi tímabundið gegn gjaldi ef slíkar aðstæður skapast?

Ef hæstv. ráðherra er reiðubúinn til að taka það inn í ákvæðið er að myndast samstarfsgrundvöllur milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Svo langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, af því að honum varð tíðrætt um samráð og samstarf: Af hverju var stjórnarandstöðunni ekki boðið til samstarfs um þetta mál? Var það vegna þess að hann þurfti þrisvar sinnum að koma með tillögu til hæstv. forsætisráðherra og var í öll skiptin gerður afturreka? Mátti stjórnarandstaðan ekki verða vitni að því? Er það kannski (Forseti hringir.) ástæðan?