133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:03]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú setur hv. þingmaður mig í nokkurn vanda. Hann er löglærður en ekki ég. (Gripið fram í: Þú ert flutningsmaður.) Ég hef skilið hugtakið þannig að það sé vörn í því að stjórnarskrárákvæðið geri ráð fyrir því að þjóðareignin haldist. Ég hef heyrt lögskýringar um það að með lögum megi taka einstaka eign út úr þjóðareigninni og ráðstafa henni síðan, en þjóðareignin sé heildstætt hugtak og það megi ekki gera það með öðrum hætti en þá þeim sem ég nefndi.

Nú var ég að vitna til lögfræðinga sem ég hef spurt um þetta, lögfræðinga sem unnu með auðlindanefnd sem skilaði áliti sínu í september árið 2000, að þjóðareignin verður ekki tekin, framseld óafturkallanlega eða varanlega, en löggjafinn getur tekið einstaka eign út úr til annarrar ráðstöfunar.

Ég tek það sérstaklega fram að þetta hef ég eftir lögfræðingum (Forseti hringir.) sem þekkja þetta betur en ég geri.