133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:08]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að þetta væri skýrt og stutt ákvæði. Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er þetta: Með því að breyta ákvæðinu frá þeirri tillögu sem bæði auðlindanefnd og undirnefndin í stjórnarskrárnefnd höfðu, þ.e. að þjóðareign ætti að snúast um landsréttindi og náttúruauðlindir sem ekki væru háð einkaeignarrétti og yfir í það að verið væri að tala um þjóðareignir allra landsmanna, líka einkaeignir, segir hæstv. ráðherra að þetta sé skýrt ákvæði. Ég bið um betri og skýrari útskýringu á því hvort ekki sé hættulegt að menn fari að tala um þjóðareign á jörðinni hans Jóns á Hóli eða (Forseti hringir.) ánni hans Guðmundar.