133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:39]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi nota tækifærið til að ítreka það sem ég hef áður sagt í andsvörum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson út af lýsingum hans á störfum í stjórnarskrárnefnd. Hann velur þar úr það sem hentar og túlkar með sínum hætti þegar hann talar um formleg vinnuskjöl og annað. Það liggur auðvitað fyrir að þeir undirhópar sem hann vísar til lögðu eingöngu fram umræðugrundvöll fyrir nefndina en voru ekki með formlega tillögugerð eða þess háttar, þannig að því sé haldið til haga.

Hins vegar verð ég nú að lýsa mig ósammála síðasta andsvaranda, hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni, um að gætt hafi einhvers sérstaks sáttatóns í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Mér fannst hann hafa hér allt á hornum sér og gera sem mest úr ágreiningi í málinu. Ég deili ekki þessu sjónarmiði (Forseti hringir.) sem kom fram hjá hv. þingmanni.