133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki hissa á að hv. þingmaður vilji ekki finna sáttatón hjá mér. Það liggur alveg fyrir úr fjölmiðlum að hv. þingmaður vill ekki ná sátt um þetta fremur en hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem hefur tekist þokkalega að ala þessa ungu menn upp pólitískt, hefur sagt að þetta sé þykjustufrumvarp. Það er skilningur hæstv. forsætisráðherra. Hann lýsti því í dag að þetta breytti engu. Þetta er bara til að þykjast. Þetta er bara gert til að plata Framsóknarflokkinn af því Sjálfstæðisflokkurinn er bestur í því. Hann hefur mesta reynslu í því.

Hins vegar er það alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, ég vil bara undirstrika það, að þessi tillaga frá undirhópi stjórnarskrárnefndar var vinnuskjal. Það var notað í áfangaskýrslu að beiðni hv. þingmanns. Ég fellst alveg á það og líka á að það hafi verið umræðugrundvöllur. Það er alveg hárrétt. Það hafði enga aðra formlega stöðu.

En eigi að síður þá var það undir forustu einhvers efnilegasta (Forseti hringir.) þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem þessi umræðugrundvöllur varð til.