133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:42]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja upp að þegar málið var til umfjöllunar í stjórnarskrárnefnd var það tekið fyrir ásamt fjölmörgum öðrum atriðum sem þar voru til meðferðar. Það tókst ekki að ljúka umfjöllun um það mál og voru ekki lagðar fram formlegar tillögur og formlegum tillögum var ekki hafnað.

Hins vegar kom þar fram, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, að í ýmsum atriðum er skilningur manna á einstökum ákvæðum í þessu sambandi, einstökum orðum og hugtökum, ekki sá sami. Við töldum að það væri mikilvægt að ná niðurstöðu um það í stjórnarskrárnefndinni. Það tókst ekki.

Ég tel hins vegar að frumvarpið sem hér liggur fyrir hjálpi okkur töluvert í þá átt að ná skilningi á þeim hugtökum sem þarna er verið að nota. Ég held að frumvarpið sem slíkt feli í sér miklu skýrari reglu en ýmsar aðrar hugmyndir sem hafa verið á sveimi.

Hins vegar er erfitt að ræða þetta við hv. þm. Össur Skarphéðinsson (Forseti hringir.) vegna þess að hann vill ekki sjá neina niðurstöðu og finnst engin önnur niðurstaða tæk en sú sem hann hefur lýst (Forseti hringir.) þannig að það sé í þeim tilgangi að taka fiskveiðiheimildir til baka, eins og hann hefur lýst yfir í fjölmiðlum.