133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:44]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við það hvernig hv. þingmaður hefur túlkað niðurstöðu vinnuhópsins og á hvaða forsendum vinnuhópurinn skilaði þeirri tillögu sem hann gerði, þ.e. vinnuhópurinn um auðlindamálið, til stjórnarskrárnefndarinnar.

Það er alveg augljóst að í stjórnarskrárnefnd, ekki í vinnuhópnum, þurfti að gera tillögu um hugmyndir auðlindanefndar. Það er algerlega augljóst. Þess vegna tók ég þátt í því í vinnuhópnum að leggja til við nefndina að umræða færi fram á þeim vettvangi um þessar tillögur.

Við skulum hafa í huga að í áfangaskýrslunni kemur fram að fundargerðir vinnuhópanna þurfi að skoða í samhengi við þær umræður sem urðu í nefndinni. Eins og sjá má af áfangaskýrslunni þá voru þær umræður allar á byrjunarstigi og kom (Forseti hringir.) fram strax á fyrstu stigum að gera þyrfti bæði lögfræðilega (Forseti hringir.) og hagfræðilega úttekt á stöðunni.