133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:49]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um þjóðareign á auðlindum. Hér hefur verið komið nokkuð inn á aðdraganda þessa máls og þátt stjórnarskrárnefndar í því þannig að ég kýs að dvelja örlítið við það hvers vegna málið kom ekki út úr stjórnarskrárnefnd eða tillögur um það.

Stjórnarskrárnefnd var skipuð fyrir tveimur árum í kjölfarið á miklum átökum á Alþingi um mál sem m.a. snertu stjórnarskrána og ég verð að segja að þau átök settu auðvitað svip á starf nefndarinnar upphaflega. Við eyddum löngum tíma í að ræða kaflann um forseta Íslands og Alþingi og ríkisstjórn. Það var ljóst að ekki var vilji fyrir því, og ég undanskil engan flokk þar, í nefndinni að tína út einhver ákvæði úr stjórnarskránni og breyta þeim.

Fljótt kom sú leiðsögn til okkar að þarna ætti að fara fram heildarendurskoðun. Það hefur reyndar verið rakið hér að erindisbréfið var um I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar en ákveðið var áður en nefndin tók til starfa að þar skyldi allt vera undir. Ég undirstrika að það var ekki samkomulag um annað í nefndinni þegar leið á störf hennar en að þarna væri um heildarendurskoðun að ræða. Það var ljóst og ég stýrði nefndinni með það í huga.

Að lokum varð samkomulag um eitt atriði eins og fram hefur komið. Það hafði sérstöðu að því leyti að það varðaði það hvernig staðið skyldi að stjórnarskrárbreytingum. Það var sérstaklega rætt að hægt væri að kjósa sérstaklega um stjórnarskrárbreytingar. Það væri ótvírætt að þjóðin væri stjórnarskrárgjafinn og breytingunum yrði kippt út úr þeim farvegi að vera kosningamál og önnur dægurmál skyggðu á stjórnarskrárbreytingar. Forsætisráðherra var síðan sent erindi um þetta, eins og hann kom að í framsöguræðu sinni áðan.

Það mál sem hér er til umræðu, ákvæði um þjóðareign á auðlindum, kom vissulega til umræðu í nefndinni eins og hér var rakið en um það gengu ekki neinar atkvæðagreiðslur þar í ljósi þess að samkomulag var um það í nefndinni að ekki væru tekin út einstök ákvæði að undanskildu ákvæðinu um stjórnarskrárbreytingar sem ég gat um.

Það kom líka í ljós og ég gerði grein fyrir því að þarna væri um að ræða ákvæði sem væru að hluta til efnisleg í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og ég átti von á að það yrði tekið upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar eins og gert hefur verið og þetta mál er nú komið hér til umræðu.

Varðandi heildarendurskoðunina vil ég vitna í drög að áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar og þar segir svo með leyfi forseta:

„Á seinni stigum vinnu nefndarinnar komu fram tvenns konar sjónarmið um hvernig endurskoðun stjórnarskrárinnar skyldi háttað. Annars vegar að leggja ekki til neinar breytingar nema sem hluta af heildarendurskoðun og hins vegar að freista þess að ná samstöðu um breytingar eða nýmæli sem ekki virtist mikill efniságreiningur um. Niðurstaðan var þó sú að leggja að þessu sinni aðeins til breytingar á 79. gr. þar sem mælt er fyrir um hvernig breytingum á stjórnarskrá skuli háttað í framtíðinni. Nefndarmenn álíta þó rökréttan I. áfanga í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Er nánar gert grein fyrir þeirri breytingu í meðfylgjandi frumvarpi. Verði sú breyting samþykkt er um leið lagður grunnur að því að endurskoðaða stjórnarskrá megi bera undir þjóðaratkvæði. Endurskoðun stjórnarskrár mundi því öðlast ótvíræðari lýðræðislega staðfestingu heldur en raunin væri ef hún yrði afgreidd með núgildandi hætti.“

En hvað felst í því frumvarpi sem lagt hefur verið fram núna? Það hefur verið rætt um hvaða áhrif það frumvarp sem er hér til umræðu hefur á sjávarútveginn. Ég held því fram og það er alveg ótvíræður tilgangur með þessu frumvarpi að ekki eigi að styrkja þau atvinnuréttindi í sjávarútvegi sem nú eru en það á ekki að veikja þau heldur. Það á ekki að hafa áhrif á þau atvinnuréttindi í sjávarútvegi sem nú eru. Hins vegar er megintilgangurinn í frumvarpinu sá að þær nýtingarheimildir sem nú eru verði ekki beinn eignarréttur í framtíðinni. Ég held að það séu engar deilur um það innan stjórnarflokkanna. Ég hef ekki trú á því að stjórnarandstaðan sé þeirrar skoðunar heldur að málin eigi að þróast þannig.

Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins segir svo, með leyfi forseta, um 1. gr.:

„Er með þessu áréttað að ýmsar auðlindir eru og hafa lengi verið annaðhvort háðar einkaeignarrétti eða þá að einstaklingum og lögaðilum hefur verið úthlutað heimildum til nýtingar þeirra á grundvelli lagasetningar. Eru tekin af tvímæli um að ekki sé haggað við slíkum eignar- eða afnotarétti. Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda. Hins vegar eru einnig tekin af tvímæli um að óbein eignarréttindi tengd nýtingarheimildum sem þegar eru fyrir hendi munu ekki leiða til beins eignarréttar.“

Þetta er auðvitað kjarni málsins. Þetta er tilgangurinn með frumvarpinu og ég hygg að þjóðin sé nokkuð sammála um að binda í stjórnarskránni ákvæði þess efnis enda hefur það komið fram, m.a. í skoðanakönnun sem birt er í Fréttablaðinu í morgun, að 66% þjóðarinnar eru fylgjandi því að binda í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum.

Ég heyri það á ræðum stjórnarandstöðunnar í dag, svona þegar rykið sest, að stjórnarandstaðan er fylgjandi megintilgangi laganna. Ég á von á að stjórnarandstaðan vilji koma til samstarfs um þetta þegar rykið sest og þegar 1. umr. er lokið og málið fer til nefndar og menn geta skoðað það í nefnd. Ég tel að þarna sé stigið farsælt skref. Ég viðurkenni auðvitað að tíminn er ekki langur en ég tel að hægt sé að vinna gott verk í þessu þó að hann sé ekki lengri.

Ég mótmæli því að Framsóknarflokkurinn hafi ekki starfað af heilindum í þessu máli. (Gripið fram í: Ekki gagnvart Sjálfstæðisflokknum.) Ég mótmæli því að Framsóknarflokkurinn hafi ekki gert það. Ég reyndi í samræmi við það að haga öllum störfum mínum í stjórnarskrárnefnd í að samræma sjónarmiðin, fá menn saman í ályktanir um breytingar á stjórnarskránni. Því það er rétt sem fram hefur komið, og m.a. í framsöguræðu forsætisráðherra, að stjórnarskrárbreytingar hafa í langflestum tilfellum byggst á þverpólitísku samkomulagi utan breytinga á kjördæmaskipan, eins og fram kom. Ég tel mig hafa unnið algjörlega í þeim anda.

Það lá alltaf ljóst fyrir að ákvæðið sem hér er til umræðu var í stjórnarsáttmálanum. Ég lýsti áhyggjum mínum af því en ég tel að ég hafi ekki komið aftan að neinum í þessu máli sem formaður stjórnarskrárnefndar og þegar stjórnarskrárnefndinni sleppti og þetta ákvæði var komið í meðferð formanna stjórnarflokkanna náðu flokkarnir saman um þá niðurstöðu sem hér er.