133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:07]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson er sérstakur trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrárnefnd, hann var formaður hennar og undir forustu hans kostaði nefndin kapps um að vinna fyrir sem opnustum tjöldum. Hún efndi til ráðstefna, birti líka ýmsar álitsgerðir sem sérfræðingar unnu fyrir hana á vef sínum. Hún birti á vef sínum áfangaskýrsluna sem nefndin sameinaðist um að senda hæstv. forsætisráðherra og á vefnum er líka að finna tillögu undirhóps stjórnarskrárnefndar sem fjallaði um auðlindir. Í anda þessa gegnsæis, af því að ég veit að hv. þingmaður vill vera heiðarlegur og ærlegur, langar mig til þess að spyrja hann eftirfarandi.

Í einni fundargerða stjórnarskrárnefndarinnar, frá í nóvember ef ég man rétt, kemur fram að rætt var um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Samkvæmt fundargerð spurði hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður stjórnarskrárnefndar, hvort hægt væri að ná samstöðu um að afgreiða frá nefndinni tillögu um að slíkt ákvæði yrði tekið upp í stjórnarskrá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Fulltrúar hvaða flokks lögðust gegn því sem leiddi svo til þess að það varð ekki að niðurstöðu?