133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:15]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi svarað þessu skýrt. Ég held að framsóknarmenn hafi ákveðna skýringu eða skilning á því hvað séu náttúruauðlindir. En vandinn er sá að það hefur ekki tekist að ná saman um ákvæði sem raunverulega kemur í veg fyrir að löggjafinn í framtíðinni afhendi þessar eignir varanlega. Með vísan til auðlindanefndarinnar sem skilaði af sér árið 2000, þá var þar gert tvennt sem er ekki inni í þessu ákvæði. Í fyrsta lagi var neikvæð skilgreining á því hvað teljist til náttúruauðlinda og það sem teldist til náttúruauðlinda og var þjóðareign skyldi aldrei afhent varanlega án gjalds. Þetta var lykilatriði þannig að það sem er varið af þjóðareign gæti löggjafinn ekki afhent varanlega, það yrði stjórnarskrárgjafinn að gera. Það er m.a. af þessum ástæðum sem ég tel að fyrstu orðin í þessu stjórnarskrárákvæði og ég er reyndar sammála því sem kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra, þetta er fyrst og fremst stefnuyfirlýsing en hefur ekkert raunverulegt innihald. Af þessu hef ég áhyggjur og ég held að það gæti náðst sátt um það ef þetta ákvæði skýrist enn betur.