133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[21:19]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum mikilvægt alvörumál sem er frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Ég vil hefja ræðu mína á því að lýsa því yfir að ég varð eiginlega svolítið hissa þegar þetta mál kom allt í einu upp núna á lokadögum kjörtímabilsins. Hvers vegna skyldi ég hafa orðið hissa? Jú, ég varð hissa vegna þess að hún rifjaðist einmitt upp fyrir mér stefnuræða sú sem þáverandi hæstv. forsætisráðherra flutti hér í þessum sal þann 27. maí árið 2003. Þá var þetta kjörtímabil, sem nú er senn á enda, nýhafið. Þá voru aðeins örfáir dagar frá kosningum og ég held að það sé óþarfi að rifja það upp að í þeirri stefnuræðu flutti hæstv. þáverandi forsætisráðherra í raun og veru stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Ég man vel hvað stóð í þeim stjórnarsáttmála og þegar ég frétti af þessu máli fór ég og skoðaði þennan stjórnarsáttmála. Ég las hann yfir og staldraði að sjálfsögðu við kaflann um sjávarútvegsmálin sem öðrum þræði eru jú einnig byggðamál. Ég las þær fáu línur þar sem vikið var að þessum mikilvægu málaflokkum. Þær línur hljóða svo, með leyfi forseta:

„Leitast verður við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða, til dæmis með því að kanna kosti þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila, að nýta tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar þeirra, takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins, auka byggðakvóta og taka upp ívilnun fyrir dagróðrarbáta með línu. Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá.“

Þarna var það þá komið eins og rúsínan í pylsuendanum, síðasta setningin átti nú að verða að lögum, hún átti að fara í sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Rétt fyrir kosningar kom þetta allt í einu.

Hvað með öll hin málin? Hvað með setninguna um það að leitast verði við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða? Hefur það verið efnt? Ég segi nei. Ég segi nei, virðulegi forseti, það hefur ekki verið efnt. Litla fingri hefur ekki einu sinni verið lyft. Við sáum átakanlegt dæmi um það í gær þegar haldinn var fjölmennur fundur á Ísafirði þar sem þjóðin fékk að heyra neyðarkall frá Vestfjörðum. Fjölmennur borgarafundur, og þjóðin fékk að heyra neyðarkall frá Vestfjörðum. Skyldi kannski engan undra.

Það var líka talað um að kanna ætti kosti þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila að fiskveiðiheimildum. Hefur það verið efnt? Nei, ekki eitt orð um það á kjörtímabilinu, ekki eitt einasta orð. Litli fingurinn er hvergi sjáanlegur heldur í þessu máli.

Síðan sagði að nýta ætti tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar sveitarfélaga. Virðulegur forseti. Það hefur líka verið svikið. Það hefur ekkert heyrst af þessu, ekki sést nein viðleitni til þess að þetta yrði að veruleika.

Takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins? Ég kannast ekki við það. Ég fæ ekki séð að hróflað hafi verið við framsalinu með einum eða neinum hætti, langt í frá.

Auka byggðakvóta? Nei.

Línuívilnunin, taka upp ívilnun fyrir dagróðrarbáta með línu? Kannski svona aðeins, en ekki meira en það. Bara pinkupons. Það var efnt með miklum semingi, það þurfti nánast að draga ríkisstjórnarflokkana gólandi að borðinu og neyða þá til þess að standa þótt ekki væri nema við þetta loforð. Það var gert með hangandi hendi og settar í kringum það ótal reglur, stífar reglur, vegna þess að það þótti í raun og veru afskaplega vont mál að ætla að reyna að rétta byggðunum hjálparhönd með þessum hætti. Jafnvel þótt fyrir lægi samþykkt frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins um þetta mál, jafnvel þótt hún lægi fyrir voru stjórnarflokkarnir mjög tregir til þess þó að sýna einhverja viðleitni til að efna þetta loforð.

Síðan kemur ákvæðið um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar og það verði bundið í stjórnarskrá. Þetta þykjast flokkarnir vera að efna núna, reyndar var það Framsóknarflokkurinn sem reið á vaðið í óþökk Sjálfstæðisflokks með yfirlýsingum á flokksráðsfundi sínum, held ég að sú samkoma hafi verið kölluð. Nú höfum við hér frumvarpið sem hefur verið borið inn á hið háa Alþingi af tveimur fulltrúum framkvæmdarvaldsins. Virðulegi forseti. Þetta er mjög óvenjulegt. Ég held að það sé einsdæmi að tveir fulltrúar framkvæmdarvaldsins, þ.e. sitjandi ráðherrar, annars vegar hæstv. forsætisráðherra og hins vegar iðnaðar- og viðskiptaráðherra, beri inn á borð hér á hinu háa Alþingi frumvarp til breytingar á sjálfri stjórnarskránni þegar aðeins nokkrar klukkustundir eru eftir af þingtíma miðað við starfsáætlun, kannski í samráði við þingflokka stjórnarflokkanna en alls ekki í samráði við þingflokka stjórnarandstöðunnar. Mér er tjáð af þeim sem hafa meiri þingreynslu en ég að hefð sé fyrir því að þegar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á löggjafarsamkomunni fara í þá vinnu að hrófla við helgustu lagasetningu þjóðarinnar sé það yfirleitt gert í sátt, þingflokkarnir setjist niður og ræði leiðir til þess að gera breytingar á stjórnarskránni, vonandi til bóta, og það síðan gert í sátt og sameiningu.

Hér höfum við hins vegar, virðulegi forseti, eins og ég sagði áðan, tvo fulltrúa framkvæmdarvaldsins. Annar þeirra er ekki einu sinni kjörinn á þing, hann hefur ekki umboð frá kjósendum til lagasetninga í þessu landi því að hann er ekki kjörinn þingmaður, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Jón Sigurðsson. (ÖS: Má ekki bæta úr því?) Þetta er mjög undarlegt. Má ekki bæta úr því? segir hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson. Ja, ég skal ekki segja, kjósendur virðast a.m.k. ekki vera mjög fíknir í að bæta úr því miðað við niðurstöður skoðanakannana í vetur. Það er kannski vafaatriði hvort umbætur fáist á því í kosningunum fram undan. Ég skal ekki segja, kjósendur ráða, kjósendur í þessu landi eiga að ráða og ég hygg að þeir muni hafa sitt að segja um þann gjörning sem nú er að fara fram á hinu háa Alþingi.

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að kjósendur fylgjast með. Kjósendur eru þeirrar skoðunar að menn eigi að vanda sig á hinu háa Alþingi og menn eiga sérstaklega að vanda sig þegar þeir fara að hrófla við stjórnarskránni. Þá hygg ég að ekki dugi að koma með frekar illa orðaða og vanhugsaða tillögu um breytingu þar sem ekkert smáræði er lagt undir, sjálfar náttúruauðlindir Íslands. Ég hefði haldið að það hefði verið farsælla að reyna að ná þá lendingu í þessu máli með því að ræða við alla flokka á Alþingi. Það er einu sinni svo að þó að við sem sitjum í stjórnarandstöðu séum þar að mörgu leyti valdalaus erum við ekkert verri fulltrúar þjóðarinnar en þau sem eru í stjórnarmeirihluta. Við erum ekkert verri fulltrúar þjóðarinnar en þau. Við sitjum líka hér í umboði kjósenda, við sitjum líka hér í umboði þjóðarinnar. Mér finnst afskaplega dapurlegt að við skulum ekki einu sinni vera spurð þegar á að fara að breyta okkar helgustu löggjöf sem er stjórnarskrá lýðveldisins.

Mér finnst það ekki sæmandi vinnubrögð. En nóg um það, virðulegi forseti. Við í þingflokki Frjálslynda flokksins höfum setið yfir þessu máli og skoðað það, við höfum gert það allt frá því að því var dreift í þinginu og veltum því fyrir okkur. Við höfum hug á því að ef á annað borð á að fara í það að setja inn einhver ákvæði um náttúruauðlindir Íslands og að þær skuli vera þjóðareign sé gríðarlega mikilvægt að tekið sé tillit til fleiri ákvæða stjórnarskrárinnar en 72. gr. sem segir svo, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Þetta er eina ákvæðið sem stjórnarherrarnir, eða þeir tveir ráðherrar sem hafa borið fram þetta frumvarp, telja ástæðu til að sé minnst á í þessum texta.

Við í Frjálslynda flokknum viljum draga inn 65. gr. stjórnarskrárinnar sem er ekki síður mikilvæg en eignarréttarákvæðið. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Okkur þykir það mjög mikilvægt að þessi regla, jafnræðisreglan, skuli vera dregin inn í þetta vegna þess að við teljum að það sé mjög mikilvægt að hamrað sé á því að allir þegnar landsins skuli hafa jafnan rétt þegar kemur að möguleikum til þess að nýta okkar sameiginlegu náttúruauðlindir. Við viljum líka draga inn 75. gr. og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Virðulegi forseti. Þegar við skoðum framkvæmd t.d. fiskveiðistjórnarlaganna, sem óhjákvæmilega hljóta að dragast inn í þessa umræðu, hljótum við að sjá að eins og málum er háttað í dag er töluvert langt í frá að bæði jafnræðisreglan sé virt en líka reglan um frelsi til atvinnu. Því miður. Þarna erum við kannski komin að kjarna málsins í deilunum um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég hygg að svo sé.

Það er einu sinni þannig að þegar við lítum um öxl og skoðum fiskveiðistjórnarkerfið, sem við höfum búið við núna í rúmlega 20 ár, er svo sem ekki mikil ástæða til að vera með stórkarlaleg húrrahróp eða fagnaðarlæti. Ég hygg að einungis þeir sem eru blindir á staðreyndir sjái ekki að þetta kerfi hefur ekki skilað tilætluðum árangri, það hefur hins vegar valdið mikilli úlfúð í þjóðfélaginu og deilum sem ekki sér fyrir endann á enn þá. Mér sýnist sem þetta mál, kvótamálið, sem snýst að verulegu leyti um grundvallarsjónarmið, muni enn eina ferðina verða kosningamál hjá okkar þjóð. Það mál er hvergi útkljáð enn.

Í upphafi ræðu minnar minntist ég á fund sem haldinn var á Ísafirði í gær. Mér finnst að sá fundur ætti að verða öllum þingmönnum umhugsunarefni, við ræddum hann aðeins í fyrirspurnatíma í dag þar sem formaður Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, las upp ályktun fundarins og kallaði eftir svörum frá hæstv. forsætisráðherra. Þar er grafalvarlegt mál á ferðinni því að staðreyndin er einfaldlega sú að fjölmargar af byggðum landsins eru komnar að fótum fram. Ég tel að ástandið sé svo alvarlegt að þessar byggðir muni ekki þola fjögur ár í viðbót undir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þær muni hreinlega ekki gera það. (ÖS: Þetta batnar í vor.) Það batnar í vor með nýrri ríkisstjórn, það batnar þegar kaffibandalagið tekur vonandi við. Fáum okkur vatn upp á það. Það þarf nefnilega að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið frá grunni vegna þess að við höfum ekki náð árangri. Við höfum ekki náð árangri með tilliti til byggða landsins, við höfum ekki náð árangri með tilliti til fiskstofnanna. Ég tel heldur ekki að við höfum náð árangri þegar við skoðum t.d. stöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Sjávarútvegurinn er sokkinn í skuldir, því miður. Það fara gríðarlegir peningar úr greininni á hverju ári í að borga af lánum og borga vexti. Það fara líka gríðarlegir peningar t.d. í kvótaleigu.

Það var hringt í mig í gærkvöldi vestan af fjörðum. Það var maður sem býr í sjávarþorpi sem ætti að vera með blómlegri byggðum á Íslandi. Hann sagði: Héðan fara á hverju ári 400 millj. kr. í kvótaleigu, og til viðbótar erum við sennilega að borga afborganir og vexti af lánum vegna kvótakaupa upp á 600 millj. Þetta eru miklir peningar fyrir svona lítið byggðarlag. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvernig staða þessara byggða væri ef þær væru ekki undirseldar þessu oki. Hvernig væri staðan í þessu litla þorpi ef milljarður kr. hefði ekki tekinn úr hagkerfi þorpsins á einu ári og fluttur eitthvað annað? Það væri sennilega bullandi velsæld í þessu þorpi en því miður er það ekki þannig í dag og mér finnst sárt til þess að vita að svona skuli staðan vera.

Mér finnst óréttlátt að byggðir þessa lands skuli ekki fá að njóta náttúruauðlinda sinna á jafnræðisgrundvelli. Þetta er ekkert lýðskrum eða bull eins og ég hygg að kannski formaður Framsóknarflokksins telji að það sé og hugsanlega líka formaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta er það ekki. Það er hins vegar mikið umhugsunarefni að við skulum hafa komið málum þannig fyrir að ástandið í sjávarbyggðum allt í kringum landið, sem liggja við ríkustu fiskimið landsins, skuli vera eins og Kristinn Pétursson fiskverkandi lýsti í gær í Silfri Egils. Ég var þátttakandi í þeim umræðuþætti en þar sagði hann söguna einfaldlega eins og hún er. Hann er mjög duglegur maður, hefur rekið fyrirtæki sitt við mjög erfiðar aðstæður í mörg ár, jafnvel þótt það sé statt við ströndina þar sem undan eru ein ríkustu fiskimið í Norður-Atlantshafi. Hann sagði: Ég er í pattstöðu, fyrirtækið mitt er lokað, það er ekki gjaldþrota, ég get ekki opnað rekstur, það er allt stopp.

Ég hlýt að spyrja, virðulegi forseti: Hvernig í ósköpunum stóð á því að okkur Íslendingum tókst að klúðra málum með þessum hætti? Hvernig í ósköpunum stendur á því að okkur tókst að búa til svona kerfi sem hefur sannarlega eytt byggðum landsins, hvernig í ósköpunum stendur á því að við höfum búið til kerfi sem hefur haft svo hroðalegar afleiðingar að ung kona kemur á flokksþing Framsóknarflokksins þann 3. mars sl. og flytur þar ræðu og segir, með leyfi forseta:

„Þegar ég horfi á byggðir landsins í dag þá verður mér oft hugsað til hugtaks úr sálfræði sem er lært hjálparleysi. Landsbyggðin er einfaldlega búin að ganga í gegnum það mörg áföll að í dag á hún erfitt með að bjarga sér, því reynslan segir okkur að þó við björgum okkur úr einum aðstæðum, þá virðumst við alltaf lenda á sama stað aftur og lendum í enn einu áfallinu.“

Og síðar sagði þessi unga framsóknarkona:

„Staðreyndin er því miður sú að máttarstólpar samfélaganna fyrir vestan eru farnir að riða til falls og tala um að gefast upp. Þegar svo er, þá er eitthvað að. Síðustu vikur hef ég upplifað raunverulegan ótta vegna heimilis míns og ég hef ekki verið ein að upplifa þennan ótta. Það hefur raunverulegur ótti gripið um sig í samfélaginu.“

Alvarlegir hlutir eru að gerast, virðulegi forseti, þegar ungir Íslendingar tjá sig með þessum hætti. Þá er fólk komið á ystu nöf.