133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:12]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þótt ég sé sammála flestum þeim markmiðum sem hæstv. umhverfisráðherra rakti hérna áðan get ég ekki fallist á að málið sé svona einfalt. Hæstv. ráðherra virðist nefnilega vera að tala um eitthvert allt annað frumvarp en það sem hér er til umræðu. Hæstv. ráðherra sagði að ef við værum sammála um markmið frumvarpsins, og ég er sammála því markmiði sem hún lýsti, og ef við værum sammála tilvísuninni í álitsgerð auðlindanefndar hlytum við að geta orðið sammála um frumvarpið. Það er röng ályktun.

Ég er sammála markmiðinu sem hæstv. ráðherrann lýsti, eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra gerði líka fyrr í dag, en það er ekki hægt að uppfylla aðra forsendu hæstv. ráðherra nema breyta frumvarpinu. Það eru engar tilvísanir í það sem máli skiptir í auðlindanefnd. Ef hæstv. ráðherra er að bjóða upp á að því verði breytt í meðferð þingsins er ég til í það en ég get ekki samþykkt frumvarpið eins og það lítur út. Hæstv. ráðherra sagði réttilega að þjóðareign væri lykilhugtak en í frumvarpinu er hins vegar hugtakið útþynnt. Það má jafnvel orða það þannig að hugtakið sé ekki einu sinni skilgreint, og það veit hæstv. ráðherra sem er lögfræðingur að erfitt er að byggja lög á hugtökum sem lögin skilgreina ekki. Það er yfirleitt kafli í hverjum einustu lögum þar sem grunnhugtök lagabálksins eru skilgreind. Það er hvergi að finna skilgreiningu á hugtakinu þjóðareign. Þess í stað er einungis sagt að með hugtakinu þjóðareign sé lögð áhersla á þá ríku sameiginlegu hagsmuni sem allir Íslendingar hafa af því að nýta auðlindir skynsamlega.

Náttúruauðlindir eru líka skilgreindar mjög sérkennilega. Þjóðareign á náttúruauðlindum á að taka til náttúruauðlinda sem enginn á en líka þeirra sem menn hafa einkaeignarrétt á. Þar með er hugtakið þynnt mjög út og andlagið, þ.e. þjóðareignin sjálf, finnst ekki í frumvarpinu. Það er stóri gallinn á þessu og þess vegna verður að breyta því (Forseti hringir.) ef við eigum að verða sammála.