133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:18]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Með því, frú forseti, að í greinargerð með frumvarpinu er vísað m.a. til tillögu auðlindanefndar að stjórnarskrárákvæði frá árinu 2000 finnst mér mjög eðlilegt að horft sé þangað og byggt á þeim skýringum sem þar eru um þjóðareignina. Auðlindanefndin setur á sínum tíma fram heitið „þjóðareign“ sem nýtt form á eignarrétti. Ég get ekki séð hvert annað við ættum að horfa með skýringu á því hugtaki. Við hljótum að horfa til þess með skilning okkar á þessu frumvarpi og hvað það er sem það segir.

Varðandi gjaldtökuna vek ég athygli á því, sem ég tel að ég hafi komið inn á í ræðu minni áðan, að hér segir að nýta skuli þessar náttúruauðlindir til hagsbóta fyrir þjóðina. Það er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að gjald skuli koma fyrir.

Að lokum vil ég vekja athygli á því sem ég líka sagði, og þetta eru bein viðbrögð við andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að í lokamálsliðnum segir að ekkert sé því til fyrirstöðu „að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum“. Ef við gagnályktum frá því er annars konar ráðstöfun en tímabundin til afnota eða hagnýtingar ekki heimil. Það er bundið einungis við afnot eða hagnýtingu sem er tímabundin.

Í öðru lagi vil ég segja að hv. stjórnarandstaða hefur í ræðum fyrr í dag lýst sig reiðubúna til samstarfs um þetta mál, útilokar það ekki að hér geti stjórn og stjórnarandstaða náð saman um þessa breytingu á stjórnarskránni og þá er meginmarkmiðið það, sem ég ætla að stjórnarandstaðan sé sammála okkur um að tryggja, að ekki sé hægt að hefða veiðiheimildirnar sem beinan eignarrétt. Það er það sem hér hefur staðið upp úr mönnum að væri meginmálið og það er alveg skýrt í þessu frumvarpi að er ætlunin að koma í veg fyrir og að festa eignarhald þjóðarinnar (Forseti hringir.) á náttúruauðlindunum. (Gripið fram í.)