133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:26]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að halda því til haga að það sem við erum að tala um hér er að festa eignarhaldið á náttúruauðlindunum, þar á meðal fiskveiðiauðlindinni, í stjórnarskrána, það sé meginreglan. Ákvæðið gengur út frá því að síðan sé hægt með lögum að veita afnota- eða hagnýtingarrétt á þessu ákvæði.

Hv. þingmaður er hér í andsvörum sínum að rugla þessu tvennu saman, annars vegar þjóðareigninni sem verður að binda í stjórnarskrána og vilji er til að binda í stjórnarskrána, m.a. til að koma í veg fyrir að hægt sé að hefða þennan rétt sem bein eignarréttindi, en ákvæðið gerir jafnframt ráð fyrir því að hagnýtingunni eða afnotunum skuli skipað með lögum eins og Alþingi hefur gert með fiskveiðistjórnarlögunum. Þarna er verið að rugla saman og tala um í sömu andránni tvo óskylda hluti sem ég held að sé ekki til að skýra þá umræðu sem hér fer fram. (Gripið fram í.)