133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:27]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá. Því er um mjög stórar og miklar hugmyndir að ræða sem ætlað er að hafa varanleg eða mikil áhrif.

Mig langaði í upphafi ræðu minnar að geta þess að síðasti ræðumaður, hæstv. umhverfisráðherra, fór að mínu mati ágætlega yfir það hvert er markmið Framsóknarflokksins. Ég skynjaði það á þann veg að það sem hæstv. ráðherra sagði sé það sem Framsóknarflokkurinn vildi sagt hafa. Vandinn er á hinn bóginn sá að textinn sem kom út úr vinnu formanna stjórnarflokkanna er allt annar en það markmið og sú skýring sem hæstv. ráðherra lagði út af í ræðu sinni.

Hvað er líklegt að komi út úr vinnu sem er unnin undir hótunum um stjórnarslit? Hversu líklegt er að vinna sem er unnin undir þeim formerkjum sé unnin heiðarlega og ærlega með það að markmiði sem hæstv. umhverfisráðherra lýsti? Það er alveg ljóst að textinn er einhvers konar málamiðlun milli tveggja flokka sem hafa algerlega andstæða sýn á það hvernig skipa eigi málum.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa margir hverjir lýst því fjálglega að sá texti sem er til umræðu hafi í raun enga merkingu og sé þýðingarlaus. Það er alveg fráleitt að taka ekki mark á þeim orðum. Því eins og ég lýsti áðan held ég að Framsóknarflokkurinn vilji raunverulega tryggja að náttúruauðlindir verði í þjóðareign nema þær sem eru háðar eða undirorpnar einkaeignarrétti. Það er markmiðið sem lagt er upp með og það er markmiðið sem ég ætla að tala út frá og það er markmiðið sem ég trúi að mikill meiri hluti á þingi vilji ná. Spurningin snýst hins vegar um textann sem liggur fyrir og við erum að leggja út af. Ekki hvað menn langaði að hafa í þeim texta, hvað menn vildu sagt hafa eða hvað auðlindanefnd hugsanlega meinti því sá texti er ekki hér. Hvaða texti er það sem við höfum fyrir framan okkur?

Ef við förum aðeins yfir í Sjálfstæðisflokkinn þá vitnaði ég fyrr í dag í athyglisverða grein sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði í Wall Street Journal 29. janúar árið 2004. Þar lýsti hann ágætlega vel heppnaðri, að hans sögn, róttækri og yfirgripsmikilli frjálshyggjutilraun á Íslandi undanfarin tólf til sextán ár, jafnvel með betri árangri en í Bretlandi Thatcher, Nýja-Sjálandi eða í Chile eins og Hannes Hólmsteinn kemst að orði. Ég leyfði mér að þýða þetta og biðst þá afsökunar ef eitthvað er ekki alveg sem skyldi. En ég gerði þetta eftir bestu getu. Í greininni segir Hannes eftirfarandi, með leyfi forseta:

„En margt er enn ógert. Heilbrigðis- og menntakerfið er í opinberum rekstri. Svo er einnig um ýmsa þjónustu, nokkrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar og virkjanir og raforkukerfið. Menn sem standa herra Oddssyni nálægt, þ.e. hæstv. fyrrv. forsætisráðherra, telja að áherslu eigi að leggja á lækkun tekjuskatts einstaklinga og styrkingu séreignarréttarins, bæði að því er varðar fjármagn og náttúruauðlindir landsins.“

Um er að ræða einn helsta hugmyndafræðing Sjálfstæðisflokksins til langs tíma á þessu sviði. Hann leggur megináherslu á að tryggja séreignarréttinn að því er varðar nýtingu á náttúruauðlindum. Ég held að í þessum orðum kristallist það sem Sjálfstæðisflokkurinn raunverulega meinar sem er allt annað en hæstv. umhverfisráðherra rakti í sinni ágætu ræðu, og get ég tekið undir flest það sem þar kom fram, en textinn sem við ræðum er allt öðruvísi.

Það er alveg ljóst að textinn sem við erum með er einhvers konar málamiðlun milli þessara tveggja flokka og í reynd leggja flokkarnir mismunandi áherslu og túlkun í það sem hér stendur. Hæstv. forsætisráðherra sagði að fyrst og fremst væri um stefnuyfirlýsingu að ræða en hæstv. iðnaðarráðherra færði önnur sjónarmið fram sem ekki er hægt að túlka á sama hátt.

Ef við byrjum á því að fara aðeins yfir þann texta sem liggur fyrir sem er kjarnaatriðið, ekki hvaða vinna var unnin í einhverjum flokkum, ekki hvaða vinna var unnin í einhverjum nefndum, ekki hvað menn vildu sagt hafa, heldur sá texti sem hér er. Hér segir:

„Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign.“

Lykilhugtakið hlýtur að vera „að vera í þjóðareign“.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur mjög skýrt fram að það verður löggjafans að fylla inn í það hugtak. Það er tekið fram a.m.k. í tvígang að það verður fyrst og fremst löggjafans að fylla inn í það hugtak og skýra hvað átt er við með orðinu þjóðareign. Það kemur mjög skýrt fram að það verður löggjafans að gera það.

Reyndar er það þannig að löggjafinn getur afhent náttúruauðlindir kjósi hann svo og það hefur hann gert. Ef þetta ákvæði fer óbreytt í gegn er breytingin sú að það er þá orðin stjórnarskrárvarin heimild að afhenda náttúruauðlindir. Það er ekki svo núna. Því má segja að verði þessi breyting að lögum hafi Alþingi stjórnarskrárvarða heimild til þess að afhenda náttúruauðlindir.

Reynum að átta okkur á því hvað átt er við með orðinu þjóðareign. Eins og textinn liggur fyrir og eins og greinargerðin segir er það Alþingis eða löggjafans að fylla inn í það hugtak. Í hugmyndum auðlindanefndar á sínum tíma, sem talsvert hefur verið vitnað til, var hugtakið þjóðareign skilgreint á neikvæðan hátt. Það var nokkuð skýrt hvað væri í þjóðareign, hvað í því fælist, auk þess sem löggjafinn gæti bætt inn í það hvað í hugtakinu fælist. En í þeim hugmyndum var sleginn ákveðinn varnagli á þann hátt að það sem færi í þjóðareign yrði ekki afhent varanlega til einkaeignarréttar, þ.e. að það yrði, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson komst ágætlega að orði, einhvers konar sölubann á náttúruauðlindum eins og auðlindanefnd lagði upp með. (Gripið fram í: Eins og rjúpurnar?) Ég veit ekkert hvort það hefur eitthvað með rjúpnasölu að gera en gott og vel. Kjarnaatriðið er einmitt það að einhvers konar sölubann væri á náttúruauðlindum. Í þessu felst einmitt grundvallarágreiningurinn milli allra flokka á þinginu og Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn er einn eftir með þessar hugmyndir og hann hefur augljóslega haft tögl og hagldir þegar þessi texti var saminn a.m.k. þegar maður hlýðir á orð framsóknarmanna, hv. þingmanna, á Alþingi. Þó að það sé löggjafans að skilgreina hvað er í þjóðareign er ekkert sem kemur í veg fyrir það í þeim texta sem hér um ræðir að löggjafinn taki það síðan aftur úr þjóðareign og ráðstafi því á einhvern hátt. Það er í reynd engin vörn í þessu stjórnarskrárákvæði gegn því að náttúruauðlindir verði í þjóðareign í þeim skilningi sem auðlindanefnd lagði í hugtakið í upphafi.

Ég hef í nokkur skipti reynt að fá svör við því, m.a. frá flutningsmanni, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hvaða náttúruauðlindir er tryggt að verði áfram í þjóðareign miðað við ákvæðið eins og það liggur fyrir. Ég er með útprentun á svarinu sem hæstv. ráðherra gaf í dag. Það er alveg ljóst að hann hefur þann eðlilega skilning, eða a.m.k. hefur sá skilningur borist honum til eyrna eins og hann orðaði það, að það megi taka út úr þjóðareign það sem einu sinni hefur verið sett inn. Það sé löggjafans að taka þetta út.

Þá stendur eftir spurningin: Hverju náum við fram? Hverju náum við fram með því að breyta stjórnarskránni á þennan hátt? Ef engin varanleg vörn er gegn því að löggjafarsamkundan, hvort sem er núna eða í framtíðinni, taki ákvörðun um að afhenda þessar náttúruauðlindir? Á þinginu eru uppi mismunandi viðhorf, mismunandi skoðanir og mismunandi hugmyndafræði um það hvernig fara skuli með slíkar náttúruauðlindir, hvort þær skuli vera í einkaeign eða hvort þær skuli vera í þjóðareign? Það er eðlilegt og ég ber fulla virðingu fyrir þeim viðhorfum sem þar búa að baki. Ég er hins vegar sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti á þinginu vill tryggja þetta varanlega í þjóðareign. Um það á umræðan að snúast og við eigum að tryggja það. Við eigum að tryggja að það markmið náist. Það markmið næst ekki með þeim texta sem hér liggur fyrir.

Þá vaknar spurningin, og ég leyfi mér að vísa aftur í ræðu hæstv. umhverfisráðherra, vegna þess að ég er svo til sammála öllu því sem þar kemur fram, hefði textinn verið á annan veg: Ef menn raunverulega meina það sem þar kom fram hvers vegna ekki að skrifa það í textann? Hvers vegna skrifa texta sem tryggir ekki vernd á auðlindum, sem tryggir ekki eignarrétt þjóðarinnar á þeim auðlindum sem við viljum að séu áfram í þjóðareign? Það er hin stóra spurning. Af hverju gerum við þetta þá ekki eins og við vildum hafa þetta? Í því liggur sáttin milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að þessu markmiði verði náð.

Það segir sig sjálft, án þess að ég ætli að fara að rekja aðdraganda málsins, það hafa aðrir gert og þekkja án efa betur, að það að ætla að breyta stjórnarskránni á síðustu dögum undir hótunum um stjórnarslit hlýtur að vera afbrigðilegt. Það getur ekki verið að við þær aðstæður nái menn þeirri bestu lausn sem hugsast getur. Það er alveg ljóst af þeim texta sem liggur fyrir að sú hefur orðið niðurstaðan.

Það er líka fleira sem gerir það að verkum að hugtakið þjóðareign, eins og það birtist í frumvarpinu, hefur litla sem enga merkingu. Ég leyfi mér að vitna til álitsgerðar auðlindanefndar á bls. 25. Þar er m.a. tekið skýrt fram, með leyfi forseta:

„Vegna þess að þjóðin er ekki lögaðili og þar með bær til að vera eiginlegur eigandi að lögum með sama hætti og ríkið er nauðsynlegt að kveða nákvæmlega á um það að handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds, þ.e. Alþingi og stjórnvöld, fari með allar þær eignarréttarheimildir sem í hinu nýja eignarformi felast í umboði þjóðarinnar.“

Svo segir áfram:

„Að öðrum kosti yrði eignarréttur þjóðarinnar merkingarlaus.“

Það er nákvæmlega þetta sem sá mæti lögspekingur Sigurður Líndal hefur verið að segja: Eins og þetta hugtak liggur fyrir er það algerlega merkingarlaust. Ég er þeirrar skoðunar að ef menn ætla að afgreiða hlutina svona þá þýði þetta ekki neitt. Þá hafi þetta enga þýðingu jafnvel þó að nefndir innan Framsóknarflokksins hafi unnið gott starf. Sá texti er bara ekki hér.

Hér er verið að segja: Alþingi skilgreinir þjóðareignarhugtakið og Alþingi getur tekið út úr þjóðareignarhugtakinu það sem það vill gera. Með öðrum orðum er ekki verið að tryggja kynslóðum framtíðarinnar aðgang að náttúruauðlindum eða tryggja að þær endi ekki í einkaeign eða njóti séreignarréttar. Það er það sem þessi texti segir. Það þýðir ekkert að tala um einhvern texta sem er ekki hér. Það þýðir ekkert að tala um einhverjar hugmyndir sem eru ekki á blaði. Það þýðir ekkert að tala um að það gæti verið gaman að skrifa öðruvísi nefndarálit.

Það sem skiptir öllu máli, og það er sjálfstæðismönnum löngu ljóst, er sá texti sem fer í stjórnarskrána. Allt annað er gott og blessað. Það að ætla að setja í stjórnarskrá ákvæði eins og það sem hér um ræðir, merkingarlaust að mínu viti, er ekki til þess fallið að ná sáttum. En það er hins vegar athyglisvert, og gerir það kannski að verkum að menn þurfa ekki að ljúka þessum umræðum án þess að hafa nokkra bjartsýni með í för, að Framsóknarflokkurinn meinar allt annað en þessi texti segir. Sjálfstæðismenn eru ekkert að rugla með þetta. Þeir eru alveg með það á hreinu hvað þeir vilja. Þeir vilja hafa þetta merkingarlaust. Þeir mega eiga það að þeir hafa náð því fram, það er í anda þeirra hugmyndafræði.

Það þýðir ekkert fyrir framsóknarmenn að halda því fram að tillaga þeirra snúist um allt annað en það sem stendur í textanum. Umræðan hefur að mínu viti dregið þetta mjög skýrt fram í dag. Hún hefur líka dregið fram að menn eiga ekki að ráðast í breytingar á stjórnarskrá við þær kringumstæður sem voru uppi þegar annar stjórnarflokkurinn uppgötvaði að fáir, ef þá nokkrir, vilja kjósa hann. Þá var talið rétt að vera með uppþot og hóta jafnvel stjórnarslitum ef menn fengju ekki sitt fram. Ekki er líklegt að vinnubrögð af því tagi leiði til góðrar niðurstöðu og það er nákvæmlega sú niðurstaða sem liggur fyrir að mínu viti, hún er ekki góð. Það er mín hugmyndafræði.

Ég sé framan í hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, hann brosir talsvert vegna þess að sjálfstæðismenn hafa náð því fram sem þeir vildu, að tefla fram ákvæði, segjast hafa náð einhvers konar samkomulagi, en niðurstaðan er á engan hátt á þann veg sem að var stefnt, þ.e. að tryggja að náttúruauðlindir verði varanlega í eigu þjóðarinnar að undanskildum þeim sem nú eru undirorpnar einkaeignarrétti.

Þetta er mín niðurstaða, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) en ég sé þó að meiri hluti þingsins gæti auðveldlega náð saman ef fyrir því væri vilji.