133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:47]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var eitt atriði sem mér kom í hug undir ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, 4. þm. Suðurkjördæmis, sem hann vék raunar ekki að í ræðu sinni. Hann fjallaði töluvert um hugtakið „þjóðareign“ og velti fyrir sér ýmsum þáttum í því sambandi. Ég mun kannski hafa tækifæri til að koma nánar inn á það síðar.

En ég velti einu fyrir mér í þessu sambandi. Nú er hv. þingmaður og flokkur hans mjög áhugasamur um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi velt fyrir sér hvort þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá, t.d. fiskveiðiauðlindinni, snerti með einhverjum hætti möguleika Íslands ef pólitískur vilji yrði til að gerast aðili að Evrópusambandinu, með þeim afleiðingum að fiskveiðiréttindi, t.d. utan 12 mílna, yrðu sameign eða háð sameiginlegum afnotarétti allra aðildarríkja Evrópusambandsins.

Ég held að það væri forvitnilegt að fá þann vinkil inn í umræðuna. Ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um þessi mál og gott væri að fá þann flöt á umræðunni upp og eiga orðastað við hann um það.