133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú kannast ég við minn mann. Þessa ræðu hef ég heyrt áður og kann því vel þegar fulltrúi hinna vönduðu og yfirveguðu íhaldssemi varar við allri lausung í þessum efnum. Ég tók líka eftir því að hv. þingmaður vísaði í greinargerð stjórnarfrumvarpsins og taldi hana út af fyrir sig svona nokkuð fullnægjandi lögskýringu. Það kemur mér á óvart. Þar vísa ég aftur til vinnu og kynna minna af hv. þingmanni í stjórnarskrárnefnd. En hann hefur ásamt mér og mörgum fleirum lagt áherslu á að fylgigögn með stjórnarskrárbreytingum, þar á meðal og ekki síst greinargerð frumvarpsins sjálfs, þurfi að vera skotheld og sérstaklega vönduð.

Við höfum eytt í það löngum tíma í stjórnarskrárnefnd að ræða hvernig væri útlistað og tekið á öllum vafaatriðum sem kynnu að koma upp í sambandi við túlkun ákvæða þegar um stjórnarskrárbindingu er að ræða. Því vil ég jafnframt biðja hv. þingmann að gefa mér faglegt álit sitt á lögfræðilegu gildi og lögskýringargildi þeirrar miklu greinargerðar sem fylgir frumvarpinu.